Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
banner
   þri 18. júlí 2023 12:00
Elvar Geir Magnússon
Alltaf með glósubókina á lofti þegar hann vann með Gauja Þórðar
Brynjar Kristmundsson þjálfari Víkings í Ólafsvík.
Brynjar Kristmundsson þjálfari Víkings í Ólafsvík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólsarar fengu skell gegn ÍR.
Ólsarar fengu skell gegn ÍR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Þórðarson og Brynjar Kristmundsson.
Guðjón Þórðarson og Brynjar Kristmundsson.
Mynd: Raggi Óla
Víkingar eru á toppi 2. deildarinnar.
Víkingar eru á toppi 2. deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar er ungur og spennandi þjálfari.
Brynjar er ungur og spennandi þjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur Ólafsvík trónir á toppi 2. deildar og er með fjögurra stiga forystu. Þjálfarar deildarinnar spáðu Ólsurum níunda sæti fyrir tímabilið svo þessi öfluga frammistaða liðsins hefur komið á óvart.

Brynjar Kristmundsson hefur verið að gera frábæra hluti á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari en hann er fyrrum leikmaður liðsins og var svo aðstoðarmaður hins reynslumikla Guðjóns Þórðarsonar sem þjálfaði Ólsara.

„Lífið er bara frábært þessa dagana, það gengur vel," segir Brynjar, þessi ungi og spennandi þjálfari, en hann var í viðtali við hlaðvarpsþáttinn Leiðin á Laugardalsvöll.

„Eins og þið þekkið þá er Ólafsvík mikill fótboltabær og þegar hlutirnir fara að ganga vel þá eru allir komnir á vagninn. Það er mikil stemning í bænum og það er loksins byrjað að tala um fótbolta aftur á götum bæjarins."

„Þessar spár eru oft byggðar á gengi undirbúningstímabilsins þar sem var bara ströggl á okkur, við vorum ekki að vinna marga leiki en við vissum að við ættum þessa leiki inni sem voru að koma seint til landsins. Þetta voru strákar sem voru hjá okkur í fyrra og við vissum þeirra gæði. Á sama tíma voru ungir strákar að fá dýrmætar mínútur hjá okkur sem hefur skilað sér í sumar. Þegar þeir hafa komið inn af bekknum eða startað leiki hafa þeir verið að gera mjög vel. Við vissum að við værum með betra lið en að enda í níunda sæti og létum spár ekki hafa nein áhrif á okkur."

Brotnuðum niður í þessum leik
Í fjórðu umferð fékk Víkingur Ólafsvík 7-0 skell gegn ÍR í Breiðholtinu. Þau úrslit teljast ein þau skrítnustu í sumar, sérstaklega þegar horft er á töfluna í dag þar sem Ólsarar eru í efsta sæti en ÍR í sjötta.

„Þetta var ákveðið högg. Við settumst bara niður eftir þennan leik og ákváðum að þetta væri bara slys. Þetta var ólíkt okkur. Við höfum verið sterkir andlega en brotnuðum niður í þessum leik," segir Brynjar.

„Ef það er hægt að leita í einhverjar afsakanir þá fékk markvörðurinn okkar rautt spjald í leiknum á undan og varamarkvörðurinn okkar veikist. Þá þurftum við að ræsa út markmann sem hafði ekki æft fótbolta í þrjú ár. Hann hafði ekkert æft með okkur og þetta var skrítið. En við litum á þennan leik sem lærdóm, lærðum af þessu og breyttum ýmsum áherslum og síðan hefur gengið mjög vel."

Þvílíkt þakklátur fyrir tækifærið
Brynjar segist mjög þakklátur fyrir þau ár sem hann vann með Guðjóni Þórðarsyni og segir þau hafa verið gríðarlega lærdómsrík. Eins og flestir lesendur vita er Guðjón sá íslenski þjálfari sem hefur náð hvað lengst, stýrði landsliðinu með góðum árangri og var stjóri Stoke City.

„Það var frábært að vinna með honum. Maður var með glósubókina á lofti allan daginn og að pikka upp alla reynslu sem hann hefur fram að færa. Þetta var dýrmætt fyrir mig. Við erum af tveimur mismunandi 'skólum' en öll þessi reynsla sem hann býr yfir, þetta snýst um meira en að stilla upp í lið og setja upp taktík. Hann hefur þvílíka reynslu í að stjórna hóp og frábært fyrir mig sem ungan þjálfara að vera með allt þetta í vopnabúrinu. Þessi 2-3 ár með honum voru dýrmæt fyrir mig og hann gaf mér allan tímann sterka rödd. Ég fékk að stýra æfingum og vera með mínar áherslur. Það er klárlega að hjálpa mér í dag," segir Brynjar.

„Þetta var eitt stórt þjálfaranámskeið fyrir mig og ég er þvílíkt þakklátur fyrir að hafa fengið það tækifæri að hafa unnið með honum."

Hugrakkari í okkar nálgun
Hver er helsti styrkleiki Víkingsliðsins?

„Við erum fyrst og fremst með gæðamikla leikmenn. Við höfum verið að leggja upp leikina með því að taka stjórn á þeim, reyna að stýra þeim með boltann. Við erum með virkilega sterka pressuspilara, reynum að halda boltanum og pressa hátt. Það hefur virkað vel hingað til," segir Brynjar.

„Við erum með reynslu í hverri línu og með leikmenn sem geta stýrt leikjum og gefið af sér til ungu leikmannana. Stærsta breytingin frá því í fyrra er að við erum með meiri stjórn á leikjum og hugrakkari í okkar nálgun. Við þorum að taka leikinn til okkar og stýra honum. Þegar manni líður eins og maður sé með yfirhöndina þá fá leikmenn sjálfstraust og fara að njóta þess að spila fótbolta, það er það allra mikilvægasta og styrkleiki okkar."

Ekta bikardramatík
Víkingur Ólafsvík heimsækir Magna á Grenivík annað kvöld í 16-liða úrslitum Fótbolti.net bikarsins, bikarkeppni neðri deilda. Ólsarar unnu dramatískan sigur gegn Þrótti Vogum í hörkuleik í umferðinni á undan þar sem eina markið var flautumark í uppbótartíma.

„Þetta var geggjað. Það er fyrst og fremst ógeðslega gaman að þessi bikar hafi verið settur upp. Að fá tækifæri til að spila úrslitaleik, fyrir þessi minni lið. Við vorum hoppandi kátir þegar þetta mark kom á 95. mínútu, ekta bikardramatík. Þetta gaf okkur innspýtingu og sjálfstraust sem hefur hjálpað eftir því sem hefur liðið á," segir Brynjar.

„Það er alltaf erfitt að fara á Grenivík. Enn eitt ferðalagið, enn einn grasvöllurinn og Eyjabitakallinn öskrandi á menn úr stúkunni. Við förum inn í þennan leik og ætlum okkur sigur en vitum að það verður erfitt. Þetta eru sprækir strákar, orkumiklir leikmenn sem eru tilbúnir að vinna fyrir hvorn annan. Við þurfum að mæta í þennan leik á fullu gasi, annars getum við lent í veseni."

Fótbolta.net bikarinn á miðvikudag
18:00 Magni-Víkingur Ó. (Grenivíkurvöllur)
18:00 Völsungur-Haukar (PCC völlurinn Húsavík)
19:15 KFK-Ýmir (Fagrilundur - gervigras)
19:15 KFA-Höttur/Huginn (Eskjuvöllur)
19:15 Augnablik-KFG (Fífan)
19:15 Elliði-Kári (Würth völlurinn)
19:15 Víðir-Hvíti riddarinn (Nesfisk-völlurinn)
19:15 Árborg-ÍH (JÁVERK-völlurinn)
Leiðin á Laugardalsvöll - Spjaldaregn í kortunum
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner