Þriðja umferð ensku úrvalsdeildarinnar hefst á morgun og klárast svo á mánudaginn þegar erkifjendurnir í Liverpool og Manchester United eigast við.
Theódór Ingi Pálmason, Teddi Ponza - FPL Ponza, var spámaður síðustu umferðar og var hann með átta rétta, þar af fjóra hárrétta.
Spámaður þriðju umferðar er Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins og leikmaður ÍBU.
Theódór Ingi Pálmason, Teddi Ponza - FPL Ponza, var spámaður síðustu umferðar og var hann með átta rétta, þar af fjóra hárrétta.
Spámaður þriðju umferðar er Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins og leikmaður ÍBU.
Tottenham 2 - 0 Wolves (11:30 á morgun)
Tottenham líta leiðinlega vel út og eru með stjóra sem fengi leikmennina til að deyja fyrir sig. Wolves ættu ekki að vera teljandi fyrirstaða fyrir þá. Fyrirsjáanlegt markaskorarapar í Kane og Son.
Crystal Palace 2 - 1 Aston Villa (14:00 á morgun)
Ég held að einn besti miðjumaður deildarinnar frá upphafi, Patrick Vieira, nái í fyrsta sigur Palace. Ég allavega held meira með honum en Stevie G. Zaha og Doucoure sjá um þetta fyrir Patrek vin minn og ég giska á að Ollie skori fyrir Villa.
Everton 0 - 1 Nottingham Forest (14:00 á morgun)
Ég hef ofboðslega litla trú á Everton þessa dagana á meðan það er gaman í Nottingham. Henderson heldur hreinu og Neco Williams leggur hann í netið.
Fulham 1 - 1 Brentford (14:00 á morgun)
Það er líklegt að Brentfordpiltar mæti ofpeppaðir til leiks eftir flugferðina í síðasta leik. Fulhammenn eru algjörlega óhræddir og ná að komast yfir með marki frá Mitrovic (auðvitað). Trölladrengurnn Toney nær að jafna á sirka 70. mínútu en nýliðarnir standa af sér pressuna.
Leicester 3 - 1 Southampton (14:00 á morgun)
Þeir bláu mæta dýrvitlausir til leiks eftir niðurlægingu síðustu umferðar og verða komnir í 3-0 eftir hálftíma. Ætla svo að vera sniðugir og halda boltanum en fá á sig klaufalegt mark eftir heilafrost hjá Evans. Danny Ward stígur upp eftir mistök síðustu helgar og tryggir þetta fyrir Leicester. Veit ekkert hverjir skora en Vardy setur örugglega eitt.
Bournemouth 0 - 4 Arsenal (16:30 á morgun)
Leikurinn sem allir eru að bíða eftir! Arteta er að smíða skriðdreka í Norður London og bara tímaspursmál hvenær titillinn skilar sér í hús. Eða maður leyfir sér allavega að dreyma. Jesus og Martinelli setja sitt hvort í fyrri og Saka eitt í seinni. Svo kæmi mér ekki á óvart ef Saliba myndi stanga einn í rétt mark og fá okkur helsjúku stuðningsmennina til að fara að tala um hann sem besta varnarmann deildarinnar. Trust the process.
Leeds 0 - 2 Chelsea (13:00 á sunnudag)
Þetta verður erfið fæðing fyrir Chelsea en þeir ná að troða inn tveimur á seinasta korterinu. Sterling og Mount klára þetta fyrir Chelsea og Tuchel og Marsch horfast vandræðalega lengi í augu eftir leik.
West Ham 2 - 0 Brighton (13:00 á sunnudag)
Nú er komin tími á að Hamrarnir trekki sig í gang og negli inn nokkrum stigum. Þeir fá víti og Declan Rice rífur boltann af Antonio og kvittar fyrir klúðrið í síðasta leik. Benrahma tryggir þetta svo í uppbótartíma.
Newcastle 1 - 5 Man City (15:30 á sunnudag)
Battle of the oil money verður ekkert sérstaklega spennandi í þetta skiptið. City er einfaldlega mikið betra lið og með kið betri stjóra en Newcastle. Bilið á samt eftir að minnka á næstu árum. Haaland gerir þrennu og De Bruyne eitt. Fimmta markið verður örugglega sjálfsmark. Newcastlemarkið verður líka sjálfsmark.
Man Utd 1 - 0 Liverpool (19:00 á mánudag)
Öll heilbryggð skynsemi segir mér að Liverpool eigi að taka þetta örugglega. Þessvegna ætla ég að tippa á United. Fred neglir inn einu af löngu færi og McTominey fær rautt spjald. Strákurinn í markinu (bein tilvitnun í Hjörvar Hafliðason) á svo eftir að eiga stórleik og verður valinn leikmaður umferðarinnar.
Fyrri spámenn:
Teddi Ponza - 8 réttir
Tómas Þór - 6 réttir
Athugasemdir