Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 22. ágúst 2021 20:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðar Örn, Viðar Ari og Hólmar skoruðu - Hákon fékk tækifæri
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Ari er að eiga stórkostlegt tímabil.
Viðar Ari er að eiga stórkostlegt tímabil.
Mynd: Sandefjord
Guðrún Arnardóttir.
Guðrún Arnardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Arnar Haraldsson.
Hákon Arnar Haraldsson.
Mynd: Getty Images
Gengur ekki mikið upp hjá Jóni og félögum.
Gengur ekki mikið upp hjá Jóni og félögum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson byrjaði sinn fyrsta leik meiðsli er Vålerenga gerði 1-1 jafntefli við Viking í norsku úrvalsdeildinni. Viðar minnti heldur betur á sig því hann skoraði mark Vålerenga í leiknum.

Viðar kom Vålerenga yfir eftir 11 mínútna leik, en Viking jafnaði metin þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Samúel Kári Friðjónsson kom inn á sem varamaður hjá Viking á 74. mínútu leiksins.

Þessi tvö lið sitja í sjötta og sjöunda sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir þessi úrslit.

Þá heldur Viðar Ari Jónsson að eiga stórkostlegt tímabil með Sandefjord. Hann var á skotskónum í dag, rétt eins og nafni sinn, er hann skoraði í 1-1 jafntefli við Tromsö. Viðar hefur spilað á kantinum á þessu tímabili og gert það mjög vel.

Viðar er búinn að skora níu mörk í deild og bikar á þessu tímabili, í 18 leikjum. Hann hlýtur að gera tilkall í A-landsliðshópinn fyrir leikina í undankeppni HM í næsta mánuði, rétt eins og Viðar Örn.

Adam Örn Arnarson kom inn á sem varamaður í hálfleik hjá Tromsö. Sandefjord er í 11. sæti og Tromsö í 13. sæti.

Það voru alls þrír Íslendingar á skotskónum í Noregi því Hólmar Örn Eyjólfsson skoraði í 5-0 sigri Rosenborg gegn Odd. Hann kom Rosenborg á bragðið eftir aðeins tveggja mínútna leik. Rosenborg er í þriðja sæti deildarinnar.



Alfons Sampsted spilaði allan leikinn í sigri Bodö/Glimt á Kristiansund, en Brynjólfur Willumsson var ekki í hóp hjá Kristiansund, Binni hefur verið að glíma við meiðsli en verður klár um næstu helgi. Bodö/Glimt er í öðru sæti og Kristiansund í fjórða sætinu.

Þá lék Emil Pálsson sinn fyrsta leik með Sogndal í 1. deildinni í Noregi, í 1-1 jafntefli við Start. Sogndal er í þriðja sæti.

Cecilía fékk á sig sex í Íslendingaslag
Í sænsku úrvalsdeildinni var Íslendingaslagur er Rosengård mætti Örebro. Guðrún Arnardóttir lék sinn fyrsta leik með Rosengård eftir félagaskipti sín frá Djurgården. Hún er að fylla skarðið sem Glódís Perla Viggósdóttir skilur eftir sig. Glódís fór til Bayern München.

Guðrún fer vel af stað með Rosengård því lið hennar vann 6-0 sigur. Cecilía, sem er mjög efnilegur markvörður, þurfti að taka boltann sex sinnum úr netinu í dag. Berglind Rós Ágústsdóttir lék með Örebro í leiknum.

Rosengård er á toppnum með níu stiga forskot. Örebro er í næst neðsta sæti deildarinnar.

Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Piteå sem gerði 1-1 jafntefli við Linköping. Piteå er í tíunda sæti deildarinnar.

Í úrvalsdeild karla í Svíþjóð voru fjórir leikir. Ari Freyr Skúlason og Ísak Bergmann Jóhannesson voru í byrjunarliði Norrköping sem tapaði 2-1 fyrir Halmstad.

Jón Guðni Fjóluson var í byrjunarliði Hammarby í 2-2 jafntefli gegn Elfsborg. Sveinn Aron Guðjohnsen þreytti frumraun sína með Elfsborg og lék rúmlega fimm mínútur. Valgeir Lunddal var ónotaður varamaður og Óskar Sverrisson var ekki í hóp hjá Häcken í 2-1 tapi gegn AIK. Aron Bjarnason var þá ekki með Sirius í jafntefli gegn Örebro.

Elfsborg er í fjórða sæti, Hammarby í fimmta sæti, Norrköping í sjötta sæti, Häcken í níunda sæti og Sirius í 13. sætinu.

Hákon þreytti frumraun sína
Hákon Arnar Haraldsson spilaði sinn fyrsta leik með aðalliði FC Kaupmannahafnar í dönsku úrvalsdeildinni þegar hann kom inn á sem varamaður í 2-0 sigri á SönderjyskE.

Hákon er aðeins 18 ára gamall og einn efnilegasti leikmaður þjóðarinnar. FCK er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.

Það hefur ekkert gengið hjá AGF sem er í næst neðsta sæti með aðeins tvö stig. Jón Dagur Þorsteinsson lék með AGF í 2-0 tapi gegn Viborg í dag. Hann spilaði allan leikinn í tapinu.

Í dönsku B-deildinni komu Aron Sigurðarson og Ágúst Hlynsson inn á sem varamenn í sigri Horsens gegn Jammerbugt, 2-1. Horsens er í fimmta sæti deildarinnar.

Aron og Willum ekki með
Aron Jóhannsson lék ekki með Lech Poznan í Póllandi í dag, og Willum Þór Willumsson lék ekki með BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi. Þeir eru báðir frá vegna meiðsla.
Athugasemdir
banner
banner