PSG íhugar að reyna við Rashford - Dewsbury-Hall orðaður við Chelsea - Archie Gray eftirsóttur
   þri 25. júní 2024 18:01
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Austurríki vinnur D-riðil - Holland í þriðja sæti
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
D-riðli Evrópumótsins lauk með afar áhugaverðum leikjum í dag, þar sem ríkti gríðarleg spenna allt fram að lokasekúndunum.

Það var nóg af mörkum í viðureign Hollendinga og Austurríkismanna þar sem liðin skiptust á að skora í gríðarlega skemmtilegum slag.

Austurríki tók forystuna í þrígang og stóð að lokum uppi sem sigurvegari bæði í þessum leik og í riðlinum sjálfum.

Donyell Malen skoraði eina mark fyrri hálfleiksins með skrautlegu sjálfsmarki og var staðan 0-1 eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik. Hollendingar fengu dauðafæri til að jafna sem fór forgörðum en Austurríkismenn voru einnig hættulegir í sínum sóknaraðgerðum.

Cody Gakpo jafnaði metin eftir flotta skyndisókn í upphafi síðari hálfleiks efitr undirbúning frá Xavi Simons en Romano Schmid var búinn að taka forystuna á ný tólf mínútum síðar.

Memphis Depay jafnaði metin aftur á 75. mínútu, eftir að Wout Weghorst skallaði fyrirgjöf niður til hans í dauðafæri. Gleði Hollendinga var þó skammlíf þar sem Marcel Sabitzer skoraði fimm mínútum síðar til að koma Austurríki í 3-2 forystu, eftir stoðsendingu frá Christoph Baumgartner. Sabitzer slapp í gegn eftir hrikalega slakan varnarleik Hollendinga og gerði afar vel að klára úr þröngu færi.

Holland reyndi að jafna leikinn á lokakaflanum en hafði ekki erindi sem erfiði og stóðu Austurríkismenn uppi sem sigurvegarar.

Austurríki vann bæði viðureignina gegn Hollendingum og D-riðilinn, þar sem Frakkar gerðu óvænt jafntefli við Pólland.

Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleik sem var nokkuð jafn, þó að Frakkar hafi fengið betri færi og komist hársbreidd frá því að skora.

Jakub Kiwior, varnarmaður Arsenal, braut klaufalega af sér innan vítateigs og skoraði Kylian Mbappé af vítapunktinum. Ousmane Dembélé fiskaði vítaspyrnuna.

Pólverjar svöruðu fyrir sig á 79. mínútu þegar Dayot Upamecano gerðist brotlegur innan eigin vítateigs og steig Robert Lewandowski á vítapunktinn.

Mike Maignan varði frá Lewandowski, en steig af marklínunni áður en boltinn fór af stað og því þurfti að endurtaka spyrnuna. Lewy tók samskonar vítaspyrnu í annað skiptið og skutlaði Maignan sér aftur í rétt horn, en í þetta skiptið náði hann ekki til boltans.

Frakkar reyndu að sækja sigurmark á lokakaflanum en tókst ekki og urðu lokatölur 1-1.

Frakkar enda því í öðru sæti D-riðils, en Pólverjar voru dottnir úr leik fyrir lokaumferðina og spiluðu því einungis upp á stoltið í dag.

Ljóst er að Frakkar spila við annað sætið úr E-riðli í 16-liða úrslitum og geta svo mætt Portúgal í 8-liða, á meðan Austurríki mætir öðru sætinu úr F-riðli í 16-liða úrslitum.

Holland 2 - 3 Austurríki
0-1 Donyell Malen ('6 , sjálfsmark)
1-1 Cody Gakpo ('47 )
1-2 Romano Schmid ('59 )
2-2 Memphis Depay ('75 )
2-3 Marcel Sabitzer ('80 )

Frakkland 1 - 1 Pólland
1-0 Kylian Mbappe ('56 , víti)
1-1 Robert Lewandowski ('79 , víti)

D-Riðill:
1. Austurríki 6 stig
2. Frakkland 5 stig
3. Holland 4 stig
4. Pólland 1 stig



Athugasemdir
banner
banner
banner