PSG tilbúið að borga metfé fyrir Yamal - Man Utd í viðræðum við De Ligt
   fös 28. júní 2024 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Copa America: Heimamenn með bakið upp við vegg - Nunez aftur á skotskónum í fimm marka sigri
Bandaríkjamenn eru í vondri stöðu
Bandaríkjamenn eru í vondri stöðu
Mynd: EPA
Panama vann mikilvægan sigur á gestgjöfunum
Panama vann mikilvægan sigur á gestgjöfunum
Mynd: EPA
Darwin Nunez er kominn með tvö mörk í tveimur leikjum
Darwin Nunez er kominn með tvö mörk í tveimur leikjum
Mynd: Getty Images
Bandaríska karlalandsliðið í fótbolta tapaði óvænt fyrir Panama, 2-1, í C-riðli Copa America-keppninnar í nótt. Úrúgvæ vann á meðan Bólivíu, 5-0, þar sem Darwin Nunez gerði annað mark sitt á mótinu.

Eftir fimm mínútna leik átti Chris Richards skalla í slá og stöng áður en boltinn datt fyrir fætur Weston McKennie sem þrumaði boltanum efst upp í vinstra hornið úr miðjum teignum.

Markið var hins vegar tekið af McKennie vegna rangstöðu í aðdragandanum.

Ágætis byrjun Bandaríkjamanna. Fimmtán mínútum síðar fækkaði í liði heimamanna er Timothy Weah kýldi varnarmann Panama sem féll í grasið. Dómarinn sýndi honum rauða spjaldið og kvartaði Weah ekki yfir því.

Þrátt fyrir að vera manni færri voru það Bandaríkjamenn sem tóku forystuna. Folarin Balogun, fyrrum leikmaður Arsenal, skoraði með stórkostlegu skoti við vítateigslínuna í stöng og inn, en allt lá niður á við eftir það.

Cesar Blackman jafnaði fjórum mínútum síðar. Hann var með boltann fyrir utan teiginn, fékk varnarmann á móti sér, en var heppinn að boltinn skoppaði aftur fyrir hann. Blackman setti hann meðfram grasinu og í vinstra hornið.

Liðin skiptust á færum áður en Panama gerði sigurmarkið á 83. mínútu. Jose Fajardo fékk sendingu inn í teiginn, setti boltann efst í hægra hornið. Matt Turner, markvörður bandaríska liðsins, var með puttana í boltanum, en tókst ekki að bjarga marki.

Undir lok leiks var Adalberto Carrasquilla, leikmaður Panama, rekinn af velli fyrir hefnibrot og því jafnt í liðum.

Bandaríkjamenn fengu eitt gott færi til að jafna leikinn undir lokin en skalli Richards fór yfir markið. Lokatölur 2-1 fyrir Panama og er nú allt opið í riðlinum.

Eins og staðan er núna eru Bandaríkjamenn komnir með bakið upp við vegg. Þá sérstaklega þar sem þjóðin á eftir að mæta Úrúgvæ í lokaumferð riðilsins.

Úrúgvæ vann Bólivíu, 5-0, í nótt. Facundo Pellistri, leikmaður Manchester United, og Darwin Nunez, leikmaður Liverpool, skoruðu báðir fyrir Úrúgvæ.

Pellistri skoraði af stuttu færi eftir vel úrfærða aukaspyrnu liðsins. Sendingin kom inn á teiginn á Ronald Araujo sem skallaði hann fyrir markið og á Pellistri sem skoraði.

Nunez gerði annað markið þrettán mínútum síðar eftir sendingu frá Maxi Araujo. Nunez setti boltann á milli fóta markvarðar Bólivíu og gerði þar með annað mark sitt á mótinu.

Maxi Araujo, Federico Valverde og Rodrigo Bentancur bættu við þremur mörkum á lokakafla leiksins. Öruggt og þægilegt hjá Úrúgvæ.

Úrúgvæ er á toppnum í riðlinum með 6 stig og þarf því aðeins stig til að koma sér áfram í 8-liða úrslit. Bandaríkin eru í öðru með 3 stig og Panama í 3. sæti með 3 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Úrúgvæ 5 - 0 Bólivía
1-0 Facundo Pellistri ('8 )
2-0 Darwin Nunez ('21 )
3-0 Maximiliano Araujo ('77 )
4-0 Federico Valverde ('81 )
5-0 Rodrigo Bentancur ('89 )

Bandaríkin 1 - 2 Panama
1-0 Folarin Balogun ('22 )
1-1 Cesar Blackman ('26 )
1-2 Jose Fajardo ('82 )
Rautt spjald: Timothy Weah ('18, Bandaríkin), Adalberto Carrasquilla ('88, Panama)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner