fim 09. október 2008 08:00
Magnús Már Einarsson
Sumarið gert upp: Eysteinn Húni Hauksson (Grindavík)
,,Það var ekki talin mikil ástæða til bjartsýni fyrir hönd okkar Grindvíkinga er líða fór að byrjun Landsbankadeildarinnar í sumar. Við höfðum ekki beint sýnt sannfærandi leik í undirbúningsmótum og vorum til að mynda gjörsamlega rótburstaðir af Fylki í æfingaferð okkar til Portúgals, þar sem varla virtist standa steinn yfir Eysteini.
,,Það var ekki talin mikil ástæða til bjartsýni fyrir hönd okkar Grindvíkinga er líða fór að byrjun Landsbankadeildarinnar í sumar. Við höfðum ekki beint sýnt sannfærandi leik í undirbúningsmótum og vorum til að mynda gjörsamlega rótburstaðir af Fylki í æfingaferð okkar til Portúgals, þar sem varla virtist standa steinn yfir Eysteini."
Mynd: Fótbolti.net - Egill Tómasson
,,Í leiknum gegn Breiðabliki kom það okkur í opna skjöldu að nokkrir vaskir menn með gullin Grindavíkur-hjörtu höfðu ákveðið að lyfta þörfu grettistaki og stofna alvöru stuðningsmannaklúbb, Stinningskalda, sem hvatti okkur leikmenn svo sannarlega til dáða. Þetta var okkur mjög kærkomið, þar sem Grindavík var virkilega að dragast aftur úr öðrum félögum, hvað skipulagðan stuðning á leikjum varðaði.
,,Í leiknum gegn Breiðabliki kom það okkur í opna skjöldu að nokkrir vaskir menn með gullin Grindavíkur-hjörtu höfðu ákveðið að lyfta þörfu grettistaki og stofna alvöru stuðningsmannaklúbb, Stinningskalda, sem hvatti okkur leikmenn svo sannarlega til dáða. Þetta var okkur mjög kærkomið, þar sem Grindavík var virkilega að dragast aftur úr öðrum félögum, hvað skipulagðan stuðning á leikjum varðaði.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
,,Það er að heyra á bæjarbúum og leikmönnum liðsins að erfitt sé að réttlæta að vera annað en þokkalega sáttur við þennan árangur, sérstaklega í ljósi stöðunnar eins og hún var rétt fyrir mót og í byrjun þess. Einnig reyndi á breiddina því við misstum sterka leikmenn í meiðsli og má þar nefna bræðurna Michael og Ray Jónssyni, auk Grétars sem áður var nefndur.
,,Það er að heyra á bæjarbúum og leikmönnum liðsins að erfitt sé að réttlæta að vera annað en þokkalega sáttur við þennan árangur, sérstaklega í ljósi stöðunnar eins og hún var rétt fyrir mót og í byrjun þess. Einnig reyndi á breiddina því við misstum sterka leikmenn í meiðsli og má þar nefna bræðurna Michael og Ray Jónssyni, auk Grétars sem áður var nefndur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Scottie átti sín sannkölluðu magic moments á tímabilinu og þurfti yfirleitt ekki að bíða lengi á milli þeirra. Tilþrif hans og viðureignir við andstæðinga minna mann óneitanlega stundum á Chaplin myndirnar og nær hann að sameina snilldartakta og skemmtun við árangursríkan og beittan leik, sem er alls ekki svo algengt.
,,Scottie átti sín sannkölluðu magic moments á tímabilinu og þurfti yfirleitt ekki að bíða lengi á milli þeirra. Tilþrif hans og viðureignir við andstæðinga minna mann óneitanlega stundum á Chaplin myndirnar og nær hann að sameina snilldartakta og skemmtun við árangursríkan og beittan leik, sem er alls ekki svo algengt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Það stendur hins vegar eftir að ef við hefðum verið með sama „record” á heimavelli og úti, þá hefðum við staðið uppi sem Íslandsmeistarar.
,,Það stendur hins vegar eftir að ef við hefðum verið með sama „record” á heimavelli og úti, þá hefðum við staðið uppi sem Íslandsmeistarar.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Undanfarna daga hafa leikmenn liða í Landsbankadeildinni verið gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Í dag kemur Eysteinn Húni Hauksson leikmaður Grinadvíkur með pistil um sumarið en hann fer vægast sagt vel ofan í saumana hjá sínu liði.



Það var ekki talin mikil ástæða til bjartsýni fyrir hönd okkar Grindvíkinga er líða fór að byrjun Landsbankadeildarinnar í sumar. Við höfðum ekki beint sýnt sannfærandi leik í undirbúningsmótum og vorum til að mynda gjörsamlega rótburstaðir af Fylki í æfingaferð okkar til Portúgals, þar sem varla virtist standa steinn yfir Eysteini, ef svo má að orði komast. Á undanförnum árum hefur félagið einnig misst hvern máttarstólpann úr sínu liði á fætur öðrum yfir í önnur félög af ýmsum ástæðum og fyrir þetta tímabil misstum við tvo gríðarlega sterka pósta í þeim Óla Stefáni og Paul McShane sem stóðu sig virkilega vel á nýjum vígstöðvum, en þeir höfðu báðir átt langa og farsæla dvöl í Grindavík og var maður nánast farinn að líta á þá sem „part of the furniture”. Ekki bætti svo úr skák að þeir erlendu leikmenn sem áttu að koma til okkar og litu vægast sagt mjög vel út í fréttatilkynningum, sáust af ýmsum ástæðum aldrei.

Þá var okkur ekki bara spáð falli, heldur neðsta sætinu af öllum spekingum sem ég sá tjá sig um okkar lið fyrir mót. Þrátt fyrir þetta var aldrei neitt vonleysi að finna í okkar liði, né hjá okkar fólki, þrátt fyrir vægast sagt erfiða byrjun, og finnst mér það segja ýmislegt um andann í okkar ágæta félagi.

Fyrstu þrír leikirnir töpuðust og fimm af fyrstu sjö, en inn á milli komu tveir eftirminnilegir sigrar sem gáfu til kynna að ýmislegt byggi í liðinu. Sá fyrri var á útivelli gegn blikum í leik þar sem manni leið eins og allt hafi gengið upp, þó svo að við hefðum fengið á okkur þrjú mörk. Sá seinni var svo í Laugardalnum gegn Fram þar sem við lönduðum stigunum með aðeins átta menn inni á gegn ellefu, og sumir sögðu víst tólf.

Í leiknum gegn Breiðabliki kom það okkur í opna skjöldu að nokkrir vaskir menn með gullin Grindavíkur-hjörtu höfðu ákveðið að lyfta þörfu grettistaki og stofna alvöru stuðningsmannaklúbb, Stinningskalda, sem hvatti okkur leikmenn svo sannarlega til dáða. Þetta var okkur mjög kærkomið, þar sem Grindavík var virkilega að dragast aftur úr öðrum félögum, hvað skipulagðan stuðning á leikjum varðaði. „Maður finnur út hinn sanna persónuleika fólks þegar á móti blæs”, sagði einn snillingurinn forðum og finnst mér það mikill sannleikur. Þarna er því óhætt að segja að viðkomandi aðilar hafi svo sannarlega sýnt úr hverju þeir eru gerðir og er erfitt að lýsa með orðum hversu mikla upplyftingu ég tel þetta átak hafa verið fyrir okkur leikmennina.

Þar næst tóku við fimm leikir án taps, sem gáfu okkur ellefu stig, þá einn tapleikur gegn Val og svo aftur sjö stig af níu mögulegum í næstu þremur leikjum. Á þessum kafla fengum við Grétar Hjartar aftur heim, sem hafði gríðarlega góð áhrif á andann í liðinu. Hann skoraði tvö stórkostleg mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum og átti svo glæsilegt langskot í slá í þeim þriðja, rétt áður en hann var borinn útaf vegna meiðsla, sem urðu því miður til þess að hann missti af því sem eftir var af tímabilinu. Hann á eftir að koma sterkur inn á næstu leiktíð, er ég viss um.

Í þessari hrinu var eftirminnilegastur sigur á útivelli gegn FH, en þar höfum við ekki unnið áður síðan ég klæddist Grindavíkurtreyjunni fyrst, og oftar en ekki tapað stórt. Þeim sigri var vel fagnað og hugsanlega einum of vel, því í kjölfarið kom niðursveifla, sem lýsti sér í þremur tapleikjum í röð, og þá var fólk farið að minnast á að ef til vill værum við alls ekkert sloppnir við falldrauginn. Framundan var leikur á útivelli gegn HK, sem má eiginlega segja að hafi verið nokkurs konar „FH-KEFLAVÍK fallbaráttunnar”, þar sem HK, sem þá var í næstneðsta sæti, hefði enn átt möguleika á að ná okkur með sigri.

Það verður að segjast eins og er að á mörgum undanförnum árum hefur Grindavíkurliðið átt í erfiðleikum með að skila af sér sigrum í leikjum sem þessum, þegar það hefur verið í stöðu til að losa sig tímanlega frá fallbaráttunni. Nú var hins vegar annað uppi á teningunum því við mættum gríðarlega ákveðnir, sýndum mjög heilsteyptan leik, unnum sannfærandi 0-2 sigur og fengum færi til að skora fleiri en gáfum HK varla almennilegt skot á mark. Þennan leik var ég persónulega mjög ánægður með fyrir hönd félagsins, því þarna fannst mér liðið sýna ákveðin framfaramerki, auk þess sem HK hafði verið á mikilli siglingu en við í lægð í leikjunum á undan.

Við enduðum svo mótið á fjórum stigum af sex mögulegum í lokaleikjunum tveimur og niðurstaðan sú að við sigldum lygnan sjó með þrjátíu og eitt stig, sextán stigum á eftir Íslandsmeisturum FH, þrettán stigum frá fallsæti og, sem dæmi, fjórum stigum á eftir Íslandsmeisturum síðasta árs, Val, en þar skildi á milli að þeir unnu báðar innbyrðis viðureignirnar.

Það er að heyra á bæjarbúum og leikmönnum liðsins að erfitt sé að réttlæta að vera annað en þokkalega sáttur við þennan árangur, sérstaklega í ljósi stöðunnar eins og hún var rétt fyrir mót og í byrjun þess. Einnig reyndi á breiddina því við misstum sterka leikmenn í meiðsli og má þar nefna bræðurna Michael og Ray Jónssyni, auk Grétars sem áður var nefndur.

Þegar maður lítur til baka finnst mér ákveðnar ástæður fyrst og fremst liggja að baki því að við gáfum að minnsta kosti skít í allar hrakspár um fall.

Þó liðsheildin og liðsandinn hafi tvímælalaust verið okkar helstu styrkleikar, má nefna sem dæmi að koma Zoran Stamenic reyndist okkur mikill hvalreki og átti hann stóran þátt í að landa nokkrum seiglu-sigrum, sem unnust með einu marki. Oftar en ekki lá töluvert á okkur í þeim leikjum en í þeirri stöðu nutu kraftur hans, barátta og sigurvilji sín sem best og ef andstæðingur sendi háan bolta inn á teig, gátum við samherjar hans einfaldlega „farið í kaffi”, slíkur var styrkur hans og ákveðni í loftinu.

Scottie átti sín sannkölluðu magic moments á tímabilinu og þurfti yfirleitt ekki að bíða lengi á milli þeirra. Tilþrif hans og viðureignir við andstæðinga minna mann óneitanlega stundum á Chaplin myndirnar og nær hann að sameina snilldartakta og skemmtun við árangursríkan og beittan leik, sem er alls ekki svo algengt.

Carlo var mjög traustur í markinu og sýndi að þar er hreinn fagmaður á ferð, Orri gaf aldrei neitt eftir í baráttunni, þó ég sé alltaf viss um að hann eigi nóg inni á öðrum sviðum og Andri Steinn er sívaxandi og skilaði sex mörkum. Þá leysti Bogi Rafn hægri bakvarðarstöðuna virkilega vel, sérstaklega með ungan aldur hans í huga og þá augljósu fötlun hans og afbrigðilegheit að finnast betra að sparka með vinstri fæti en hægri. Hann uppskar líka í sumar eftir að hafa neitað að gefast upp í áralangri baráttu við erfið meiðsli.

Þá má ekki gleyma að minnast á þjálfarana okkar, þá Janko og Dragan sem vinna hvor annan upp á skemmtilegan hátt. Þó mér detti ekki í hug að gera lítið úr starfi Janko, enda engin ástæða til, þá held ég að þáttur Dragans sé mjög vanmetinn hjá hinum almenna knattspyrnuáhugamanni, þar sem hann er lítið í sviðsljósinu. Þeir eru báðir fagmenn fram í fingurgóma, skipta þjálfuninni skynsamlega á milli sín og hvergi er slakað á til að ná því besta út úr hverjum leikmanni. Þeir eru ekki í vinsældakeppni á meðal leikmanna og láta okkur gera það sem þeir telja þurfa til að ná árangri og hlusta ekki á neitt væl í sambandi við það. Það má líka segja þessum leikmannahópi til hróss, að afar lítið var um slíkt yfir tímabilið.

Mikilvægan þátt margra fleirri gæti ég nefnt, en þetta er víst nógu langur pistill fyrir.....

Ekki getur þó talist eðlilegt að ljúka þessari langloku minni án þess að minnast á þá furðulegu staðreynd að af þrjátíu og einu stigi okkar söfnuðust hvorki fleiri né færri en tuttugu og fjögur þeirra með átta sigrum á útivöllum. Þegar við féllum árið 2006 fengum við varla stig nema á heimavelli, sem hefur alltaf verið okkar sterkasta vopn en nú varð raunin þar EINN sigurleikur, fjögur jafntefli og sex töp. Ekki hef ég fundið skýringu á þessu, en þó eru það algjörlega hreinar línur að ekki getum við kennt lélegum velli um, því hann er hreint út sagt stórkostlegur. Því er ekki úr vegi að henda eins og einu hrósi á Begga vallarvörð, sem sinnir sínu starfi af fádæma fagmennsku og metnaði og er að mínu mati og margra annarra, tvímælalaust Landsbankadeildarmeistari á sínu sviði.

Það stendur hins vegar eftir að ef við hefðum verið með sama „record” á heimavelli og úti, þá hefðum við staðið uppi sem Íslandsmeistarar.

Já, já, ég veit. Ef, hefði, kannski, mundi....átján rófur á einum hundi, og allt það.

En nú er komið nóg af því að horfa um öxl og kominn tími til að hefjast handa við að byggja ofan á þann grunn sem lagður hefur verið á þessu tímabili. Fyrirmælin frá ritstjóra www.fotbolti.net voru skýr, pistilinn skyldi vera lengri en 300 orð.

Ég held að óhætt sé að fullyrða að ég hafi staðið undir þeim væntingum.

Áfram Grindavík!

Sjá einnig:
Marel Baldvinsson (Breiðablik)
Valur Fannar Gíslason (Fylkir)
Bjarki Freyr Guðmundsson (Þróttur R.)
Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Helgi Pétur Magnússon (ÍA)
Athugasemdir
banner