ÍA 2 - 0 Leiknir
1-0 Mark Doninger ('42)
2-0 Mark Doninger ('47)
1-0 Mark Doninger ('42)
2-0 Mark Doninger ('47)
Mark Doninger skoraði bæði mörk Skagamanna sem unnu 2-0 sigur á Leikni á Akranesi í kvöld. ÍA fór því í gegnum alla fyrri umferðina án þess að tapa leik en mótherjar þeirra í kvöld gerðu það hinsvegar án þess að vinna leik.
Það leyndi sér ekki í leiknum í kvöld að hlutskipti þessara tveggja liða í sumar hefur verið ansi ólíkt. Mun meiri kraftur var í Skagamönnum á meðan Leiknisliðið skein af sjálfstraustsleysi. ÍA var sterkara liðið allan leikinn.
Eins og oft áður var mikið rok á Skaganum og liðin áttu á tíðum í erfiðleikum með að hemja boltann. Fyrri hálfleikurinn fór nánast eingöngu fram á vallarhelmingi Leiknismanna sem áttu trekk í trekk í tómu basli með að losa boltann af hættusvæðum. Hurð skall nærri hælum í nokkur skipti.
Mark ÍA lá í loftinu og því brá mörgum vallargestum þegar Leiknir var næstum búið að taka forystuna eftir 40 mínútna leik. Miðvörðurinn Óttar Bjarni Guðmundsson átti þá skalla eftir hornspyrnu en bjargað var á marklínu.
Skömmu síðar tóku Skagamenn forystuna. Boltinn barst á Mark Doninger sem var skyndilega kominn einn á auðan sjó og náði að renna boltanum framhjá Eyjólfi Tómassyni, markverði Leiknis.
Forysta heimamanna eitt mark í hálfleik en varð tvö strax í upphafi seinni hálfleiks. Leiknisliðinu mistókst að hreinsa boltann úr teignum, í eitt af fjölmörgum skiptum í leiknum, og barst knötturinn á Doninger sem skaut. Boltinn fór í varnarmann Leiknis en barst aftur til hans og í annarri tilraun tókst honum að skora.
Skagamenn voru með tökin allt til loka. Áræðni og hugmyndaflug vantaði sárlega í sóknarleik Leiknis sem átti aðeins eitt skot á markið í hálfleiknum. Þá skaut Aron Fuego Daníelsson fyrir utan teig og Páll Gísli Jónsson átti ekki í neinum vandræðum.
Enn einn sigur ÍA sem er einfaldlega langbesta lið deildarinnar. Ellefu leikir án taps, markatalan 31-4, níu stiga forysta á liðið í þriðja sæti og þrettán stig niður í liðið í þriðja sæti. Þetta segir það sem segja þarf. Þrátt fyrir að markahrókar liðsins hafi ekki komist á blað í kvöld þá eru aðrir leikmenn líka að stíga upp í skorun og erfitt að sjá þetta lið stöðvað.
Leiknismenn lögðu sig fram í kvöld en máttu síns lítils. Sjálfstraustið er ekki til staðar, varnarleikurinn hriplekur og miðjan kraftlaus. Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Zoran Miljkovic sem enn á eftir að koma með sínar áherslur enda hafði hann aðeins stýrt einni æfingu áður en að leiknum kom. Hann á feykilega mikið verk fyrir höndum. Leikni var spáð þriðja sæti fyrir mót en eftir úrslit kvöldsins færðist liðið niður í það neðsta, hefur ekki enn unnið leik.
Að lokum má minnast á dómgæsluna í leiknum en um flautuna hélt Englendingurinn James Adcock. Dómgæslan var góð en ansi sérstök. Adcock setti línuna hátt, flautaði lítið sem ekkert í leiknum og leyfði nánast hvað sem er. Ekki alveg það sem maður má venjast í íslenska boltanum.
Byrjunarlið ÍA:Páll Gísli Jónsson (m), Reynir Leósson, Heimir Einarsson (f), Gary Martin, Mark Doninger, Hjörtur Júlíus Hjartarson, Arnar Már Guðjónsson, Ólafur Valur Valdimarsson, Guðmundur Böðvar Guðjónsson, Dean Edward Martin, Guðjón Heiðar Sveinsson.
Byrjunarlið Leiknis: Eyjólfur Tómasson (m), Eggert Einarsson, Óttar Guðmundsson, Gestur Harðarson, Brynjar Hlöðversson, Vigfús Jósepsson (f), Fannar Arnarsson, Kristján Jónsson, Aron Fuego, Pape Faye, Ólafur Kristjánsson.