Edda Garðarsdóttir sendi RÚV yfirlýsingu vegna umfjöllunar Fréttablaðsins í morgun um málefni íslenska kvennalandsliðsins. Fótbolti.net fékk yfirlýsinguna ekki senda en birtir hana hér af vefsíðu RÚV.
Edda sendi RÚV eftirfarandi yfirlýsingu í dag
Í Fréttablaðinu í dag laugardaginn 24. ágúst er að finna umfjöllun um málefni íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu. Þar er m.a. haft eftir Þórði Lárussyni, fyrrum landsliðsþjálfara kvennalandsliðsins, að undirrituð hafi „staðið framarlega“ í einhvers konar hópefli gegn honum á sínum tíma undir fyrirsögninni „Tíu leikmenn ráku landsliðsþjálfarann“.
Af þessu tilefni vil ég taka eftirfarandi fram: Ég kom með engum hætti, hvorki formlega né óformlega, að starfslokum Þórðar Lárussonar sem landsliðsþjálfara á sínum tíma né heldur Sigurðar Ragnar Eyjólfssonar. Ákvörðun um ráðningu landsliðsþjálfara er og hefur alltaf verið alfarið í höndum KSÍ og ég hef engin samskipti átt við sambandið, hvorki í tíð Þórðar né Sigurðar Ragnars, um málefni landsliðsþjálfarans. Harma ég að nafn mitt sé dregið inn í umræðuna með þessum hætti.
Það er eðli keppnisíþrótta að skiptar skoðanir geta verið á frammistöðu jafnt leikmanna sem þjálfara. Slík umræða er ekki einskorðuð við kvennalandsliðið í knattspyrnu og ekkert óeðliegt að umræða um framtíðina eigi sér stað á vettvangi þess. Landsliðið hefur náð mjög góðum árangri á undanförnum árum og skipað sér í röð bestu landsliða Evrópu. Nú skiptir mestu að viðhalda þeim góða árangri í stað þess að reyna að ala á úlfúð á milli leikmanna, þjálfara og KSÍ.
Takk fyrir,
Edda Garðarsdóttir
Fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu
Sjá einnig:
Sif, Þóra, Ólína og Katrín Ómars skrifuðu bréfið
„Gæti aldrei átt síðasta orðið gegn konum í knattspyrnu.“
Athugasemdir