Það komu mörk í öllum regnbogans litum þegar KR vann Val í fjörugum leik í undanúrslitum Reykjavíkurmótsins í kvöld. KR mun leika gegn Fylki í úrslitum á mánudag.
Lestu um leikinn: KR 5 - 3 Valur
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, ræddi við Fótbolta.net um leikinn í kvöld og stöðu mála. Hvernig lýst honum á hópinn núna?
„Maður er alltaf til í að bæta einhverju við en við erum sáttir. Við erum nánast búnir að gera það sem við ætluðum að gera. Theodór Elmar var inni í myndinni hjá okkur á tímabili og það hefði verið bónus," segir Rúnar.
Erum með frábæran markvörð í Beiti
Vangaveltur eru uppi um að landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson gæti verið á heimleið. Hafa KR-ingar rætt við hann?
„Já eru ekki flestir á Íslandi búnir að tala við hann? Við erum með frábæran markvörð í Beiti og ég reikna með því að hann verði okkar fyrsti markvörður á næsta tímabili. Ef eitthvað annað gerist þá gerist það bara. En við berum fullt traust til Beitis og teljum hann hafa stigið stórt skref síðasta ár. Hann hefur bætt sig mikið. Hann er strákur sem við ætlum að setja allt traust á."
Athugasemdir