Gordon vill fara til Liverpool - Chelsea vill Williams sem vill fara til Barcelona - Hjulmand orðaður við Burnley
   mán 01. júlí 2024 09:15
Elvar Geir Magnússon
Spalletti fær falleinkunn - „Endalausar afsakanir“
Luciano Spalletti.
Luciano Spalletti.
Mynd: EPA
Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Ítalíu.
Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Ítalíu.
Mynd: EPA
Ítalskir fjölmiðlar nota stór orð eftir að Ítalía féll úr leik með ósigri gegn Sviss í 16-liða úrslitum EM.

Íþróttafréttamaðurinn Giancarlo Rinaldi gaf öllum hópnum einkunn fyrir mótið. Giovanni Di Lorenzo og Gianluca Scamacca fá þar falleinkunn en Gigio Donnarumma og Riccardo Calafiori valdir ljósustu punktarnir.

Þá fær landsliðsþjálfarinn Luciano Spalletti falleinkunn, 4 af 10.

„Þetta var ekki frábær byrjun fyrir nýja stjóra Ítalíu á sínu fyrsta stórmóti. Eina afsökun hans getur í raun verið sú að hann sé enn að fóta sig í starfinu. Hann þarf nú að læra ansi hratt í starfi eða heimsmeistaramótið eftir tvö ár gæti orðið hörmung, ef liðið kemst þangað," segir Rinaldi.

Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Ítalíu, segir Spalletti hafa sýnt hroka og viðurkennir að honum líst ekki á blikuna.

„Ég er ekki bjartsýnn á framtíðina. Ég tel Luciano vera frábæran félagsliðastjóra en hann verður að bæta sig sem landsliðsþjálfari. Eins og ég sagði frá upphafi þá eru þetta tvö gjörólík störf," segir Capello sem bendir á fleiri viðvörunarbjöllur.

„Þegar það er ekki leikmaður frá AC Milan og jafnvel ekki heldur Juventus í byrjunarliðinu þá hljóta að hringja viðvörunarbjöllur. Ef þessi félög eru ekki með ítalska leikmenn í landsliðsklassa þá erum við í vandamálum."

Gabriele Gravina forseti ítalska fótboltasambandsins fær líka mikla gagnrýni í fjölmiðlum. Um helgina sagði Gravina að leikjaálag á Ítalíu og fjöldi erlendra leikmanna í ítalska boltanum hefðu slæm áhrif á landsliðið.

„Forsetinn tók enga ábyrgð og kenndi öðrum um. Er Ítalía eina deildin með leikjaálag? Það eru endalausar afsakanir," skrifar Stefano Agresti í La Gazzetta dello Sport.
Athugasemdir
banner
banner
banner