Wolves
Það styttist óðum í að enska úrvalsdeildin byrji á nýjan leik. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 12. sæti eru Úlfarnir.
Um liðið: Wolves hefur tekið miklum breytingum í ljósi þess að þjálfarinn Nuno Espirito Santo hætti. Hann kom liðinu upp í ensku úrvalsdeildina og festi liðið þar í sessi. Síðasta tímabil var vonbrigði; eftir að hafa endað í sjöunda sæti tvö tímabil í röð þá var niðurstaðan 13. sæti á síðustu leiktíð.
Stjórinn: Wolves tók auðvitað portúgalskan stjóra eftir að Nuno hætti, enda sannkallað portúgalskt þema í gangi hjá félaginu. Bruno Lage heitir maðurinn sem fær það verkefni að taka við skútunni af Nuno. Lage var aðstoðarmaður Carlos Carvalhal hjá Sheffield Wednesday og Swansea áður en hann tók við Benfica og stýrði liðinu til portúgalska meistaratitilsins 2019. Lage var rekinn frá Benfica sumarið 2020 þar sem annað tímabil hans við stjórnvölinn reyndist ekki eins gott og það fyrsta.
Staða á síðasta tímabili: 13. sæti
Styrkleikar: Leikmennirnir þekkja nokkuð vel inn á hvorn annan og hefur skipulagið verið nokkuð fínt upp á síðkastið. Það er komin ný rödd inn í félagið og það virtist nauðsynlegt eftir síðustu leiktíð. Leikmenn virkuðu svolítið þreyttir á fótboltanum hans Nuno, og kemur Lage líklega inn með ferskari vinda. Það eru svo sannarlega öflugir leikmenn þarna. Liðið er með mikinn leiðtoga í hjarta varinnar í Conor Coady og endurheimtir sóknarmanninn Raul Jimenez úr meiðslum. Hversu öflugur Jimenez kemur úr meiðslum, það á hins vegar eftir að koma í ljós.
Veikleikar: Breiddin er ekki sú almesta. Það sást í fyrra þegar Raul Jimenez meiddist. Liðið skoraði aðeins 36 mörk og það er engan veginn nógu gott. Það þarf líka að virkja Adama Traore. Með hans eiginleika, þá hann að geta skilað betra framlagi. Ekki mikið gerst á leikmannamarkaðnum, en þó stefnir í að félagið haldi miðjumanninum Ruben Neves, sem er jákvætt. Situr síðasta tímabil enn í mönnum?
Talan: 199
Nuno stýrði Wolves í 199 leikjum en núna er hann horfinn á braut, til Tottenham.
Lykilmaður: Conor Coady
Leiðtoginn í hjarta varnarinnar. Gríðarlega mikilvægur í klefanum og auðvitað inn á vellinum líka. Hann er límið í þessum hóp og skilar ávallt sínu.
Fylgist með: Adama Traoré
Það er alltaf gaman að fylgjast með Spánverjanum massaða. Hann skoraði aðeins þrjú mörk í 41 leik á síðustu leiktíð og það verður að setja meiri kröfur á hann en það. Það verða svo sannarlega augu á honum; gríðarlega massaður en samt með mjög mikinn sprengikraft.
Komnir:
Yerson Mosquera frá Atletico Nacional - 4,5 milljónir punda
Francisco Trinçao frá Barcelona - Á láni
Rayan Aït Nouri frá Angers - 10 milljónir punda
José Sá frá Olympiakos - 6,8 milljónir punda
Bendeguz Bolla frá Fehervar - 850 þúsund pund
Farnir:
Christian Herc til Grasshoppers - Óuppgefið
Toti Gomes til Grasshoppers - Á láni
Rúben Vinagre til Sporting - Á láni
Ryan Giles til Cardiff - Á láni
Rui Patrício til Roma - 10 milljónir punda
Leonardo Campana til Grasshoppers - Á láni
Bendeguz Bolla til Grasshoppers - Á láni
Dion Sanderson til Birmingham - Á láni
Matija Sarkic til Birmingham - Á láni
Theo Corbeanu til Sheffield Wednesday - Á láni
Fyrstu leikir:
14. ágúst, Leicester - Wolves
22. ágúst, Tottenham - Wolves
29. ágúst, Wolves - Man Utd
Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Helga Katrín Jónsdóttir, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Victor Pálsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9.
10.
11.
12. Wolves, 86 stig
13. Brighton, 73 stig
14. Southampton, 68 stig
15. Crystal Palace, 54 stig
16. Newcastle, 52 stig
17. Burnley, 40 stig
18. Brentford, 35 stig
19. Norwich, 28 stig
20. Watford, 21 stig
Athugasemdir