Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   mán 08. janúar 2024 13:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Freyr fékk góðar skýringar - „Slegið út af borðinu nokkrum sinnum"
Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr gerði samning við Kortrijk til 2026.
Freyr gerði samning við Kortrijk til 2026.
Mynd: Kortrijk
Vincent Tan er eigandi Kortrijk.
Vincent Tan er eigandi Kortrijk.
Mynd: Getty Images
Freyr gerði frábæra hluti með Lyngby í Danmörku.
Freyr gerði frábæra hluti með Lyngby í Danmörku.
Mynd: Lyngby
Kortrijk er á botni belgísku úrvalsdeildarinnar.
Kortrijk er á botni belgísku úrvalsdeildarinnar.
Mynd: Getty Images
Hvað mun Freyr gera með Kortrijk?
Hvað mun Freyr gera með Kortrijk?
Mynd: Kortrijk
Freyr Alexandersson er þessa stundina staddur í Albír á Spáni í æfingaferð með belgíska félaginu Kortrijk. Það hefur mikið verið í gangi síðustu daga en Freyr hætti skyndilega með Lyngby í Danmörku til að taka við Kortijk sem hefur átt skelfilegt tímabil og er á botni belgísku úrvalsdeildarinnar.

Freyr hefur vakið mikla athygli fyrir árangur sinn hjá Lyngby, hann kom liðinu upp í efstu deild og náði að halda því þar með ótrúlegum hætti á síðasta tímabili eftir að staðan var svört. Liðið siglir nú lygnan sjó í dönsku úrvalsdeildinni.

„Þeir höfðu fyrst samband á aðfangadag," sagði Freyr í útvarpsþættinum Fótbolta.net um áhuga Kortrijk. „Svo eru jól og það gerðist ekki mikið þann dag. Það voru einhverjar viðræður á milli okkar í nokkra daga. Þetta var slegið út af borðinu nokkrum sinnum. Svo gengum við að hvor öðrum á gamlársdag klukkan fjögur og þá gekk þetta einhvern veginn upp. Þá átti eftir að semja við Lyngby og það tók nokkra daga að klára það. Ég líka, að klára mitt gagnvart Lyngby. Ég vildi gera þetta á góðan hátt."

Þarf að klifra hærra upp metorðastigann til þess
Jonathan Hartmann sem var aðstoðarmaður Freys hjá Lyngby fylgir honum til Belgíu. Það var eitt það helsta sem íslenski þjálfarinn lagði áherslu á í viðræðunum.

„Það var mjög mikilvægt fyrir mig að fá allavega einn aðstoðarmann með mér. Ég hefði helst viljað fá tvo til þrjá, en það er rosalega erfitt. Ég þarf að klifra hærra upp metorðastigann til að geta gert það. Ég er búinn að finna að það eru mörg félög búin að sýna áhuga en þegar kemur að því sem mér hefur fundist vanta til að færa mig frá Lyngby, þá hefur það verið hindrun. En Kortrijk gekk að því," segir Freyr.

„Svo þurfti ég að fá að heyra annað en næstu sex mánuði; ég þurfti að vita hvað gerist ef við förum niður og hvernig við dílum við það ef allt fer á besta veg. Ég þurfi að heyra bæði framtíðarplönin."

Fékk góðar skýringar
Vincent Tan er eigandi Kortrijk í Belgíu, en hann er líka eigandi Cardiff á Bretlandseyjum. Tan er skrautlegur karakter en hann vakti á sínum tíma mikla reiði á meðal stuðningsmanna Cardiff er hann breytti treyjulitunum úr bláum í rautt. Hann breytti einnig merki félagsins í rauðan dreka. Þetta var gert til að auka vinsældir félagsins, meðal annars í Kína. Freyr ræddi við Tan í ferlinu.

„Ég þurfti að tala við eigendurna og fræðast um tengslin við Cardiff, hvernig við vinnum saman. Ég er líka búinn að læra það af góðum mönnum að þú átt alltaf að semja um það hvernig þeir reka þig. Ég hef aldrei verið rekinn en það kemur að því. Ég vil hafa þetta upp á borðinu."

Ótrúlegt mál átti sér stað hjá Kortrijk síðasta sumar. Tan leitaðist eftir því að selja félagið vegna málaferlis við franska félagið Nantes út af andláti argentínska sóknarmannsins Emiliano Sala. Félagið lenti í kjölfarið í svikahröppum og hafði það mikil áhrif á yfirstandandi tímabil.

„Ég geri mína eigin rannsóknarvinnu og svo er ég með sterka umboðsskrifstofu á bak við mig sem gerði líka rannsóknarvinnu. Það eru menn sem ég treysti mjög vel. Ég fékk mjög góðar skýringar á því sem gerðist þegar átti að selja félagið síðasta sumar og hvaða stefnu félagið var að taka þá. Vincent Tan tók félagið aftur og er ekki að fara að selja það. Hann er búinn að gera það sem hann þurfti að gera. Það eru engin plön um að selja félagið og ég þurfti að fá staðfestingu á því. Ég ætlaði ekki að lenda í slíku sem þeir lentu í fyrir sjö, átta mánuðum síðan," segir Freyr.

„Síðasta ár er búið að vera skelfilegt en á undan því hefur félagið verið vel rekið og það hefur verið stöðugt í úrvalsdeildinni. Við ætlum að koma félaginu allavega þangað aftur og svo eru stærri plön ef allt gengur upp."

Lifi bara eins og alkóhlisti
Kortrijk situr í neðsta sæti belgísku deildarinnar með tíu stig eftir tuttugu umferðir. Forráðamenn félagsins vonast væntanlega til þess að Freyr framkvæmi aðra eins björgun og hann gerði með Lyngby á síðasta tímabili.

„Ég sé alveg að þetta er möguleiki. Ég þarf að setja fingur á það hversu gott lið ég er með. Ég er með góða einstaklinga en ég þarf að búa til lið úr þessu. Á þessum tíma fyrir ári síðan voru 16 stig í að ég myndi bjarga mér frá falli. Núna er ég sex stigum frá því að komast í umspil gegn liðum í deild fyrir neðan. Vonandi náum við enn lengra en í raun lifi ég bara eins og alkóhólisti. Ég tek bara einn dag í einu. Það eru svo mörg verkefni fyrir framan mig og ég þarf að setja þau í rétta röð til að ná því besta frá sjálfum mér og leikmönnunum," segir Freyr en hann er spenntur fyrir því að takast á við belgísku deildina.

„Þetta er stór deild með mjög mikil gæði. Við Íslendingar erum ekki mjög tengd íslenskum fótbolta. Ég á danska vini sem hafa verið að vinna í deildinni og þá fór ég að fylgjast aðeins meira með henni. Ég fylgdist aðeins með henni þegar íslenskir landsliðsmenn voru að spila í henni. Við höfum ekki mestu þekkinguna og ég þarf að afla mér þekkingar. Ég hafði meiri þekkingu á dönskum fótbolta þegar ég fór þar inn. Ég þarf að undirbúa mig sem best fyrir leikina sem eru framundan."

Miklar tilfinningar og mjög erfitt
Freyr sagði í viðtali við RÚV í síðustu viku að hann væri með íslenska leikmenn á lista hjá sér fyrir Kortrijk. Freyr var duglegur að sækja íslenska leikmenn til Lyngby en hjá félaginu eru Gylfi Þór Sigurðsson, Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Finnsson og Andri Lucas Guðjohnsen.

„Það er ekkert komið langt með neinn Íslending. Ég veit að hverju ég geng með íslenska leikmenn og Dani. Í þessari stöðu sem við erum í núna þá vil ég helst ná einhverju inn þar sem ég veit nákvæmlega að hverju ég geng. Fótboltamarkaðurinn er risastór og það er til endalaust af leikmönnum. Það er hafsjór af fólki sem er að bjóða sig. Ég reyni að velja vel en ég er líka með yfirmenn og heila deild sem vinnur í því að finna leikmenn. Ég reyni að koma þeim leikmönnum sem ég vil helst fá að borðinu. Við sjáum svo til hvort við höfum efni á því að kaupa þá," segir Freyr en hann segir að það hafi auðvitað verið erfitt að kveðja Lyngby.

„Það voru mjög miklar tilfinningar og þetta var mjög erfitt. Ég get bara verið þakklátur fyrir það að kveðja á þennan hátt, með virðingu og umhyggju. Það er gagnkvæmt. Það er ekki alltaf þannig og yfirleitt er það öfugt og endar á leiðinlegan hátt í aðra hvora áttina. Ég er þakklátur að við gátum gert þetta á þennan hátt. Í heildina hef ég fengið alveg gríðarlega góðar þakkir og kveðjur. Minni tími hjá Lyngby var draumi líkast frá upphafi til enda. Félagið elskar Íslendinga og Íslendingar elska félagið. Ég vona að það samband haldi áfram."

„Ég fer í fyrsta leik 20. janúar, deildarleik gegn Standard Liege á útivelli. Ég er að reyna að setja upp æfingaleik eftir að við komum heim úr æfingaferð. Ég næ tveimur vikum, sem er gott. Ég ætla að reyna að gera sem mest úr því."

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan.


Útvarpsþátturinn - Ótímabæra, Freysi og hringborðið
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner