Guðmundur Benediktsson sagði það í Stúkunni á dögunum að Valur hafði ekki hug á því að endursemja við Birki Má Sævarsson.
Birkir Már byrjaði á bekknum í tapi Vals gegn KR í dag en hann kom sterkur inn af bekknum. Hann var fenginn í viðtal hjá Fótbolta.net þar sem hann var spurður út í þessar sögusagnir.
„Ég er í viðræðum við Val. Þeir héldu því fram að mér væri hent út þarna en við erum að tala saman og vonandi náum við saman," sagði Birkir.
Aðspurður hvort þetta væru skrítin ummæli hjá Gumma Ben sagði hann.
„Nei, nei í sjálfum sér ekki, fullt af mönnum samningslausir og ekki búið að gefa neitt út nema með Sigga (Sigurð Egil Lárusson). Þeir þurfa að fá áhorf og umfjöllun," sagði Birkir.
Birkir segist hvergi nærri hættur að spila fótbolta og það sé klárt að hann mæti á grasið næsta sumar. Hann þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um með þá ákvörðun.
„Já, ég ætla að halda áfram í fótbolta. Ég ætlaði ekkert að hætta," sagði Birkir.
Sjá einnig:
Valur ætlar ekki að framlengja við fleiri leikmenn