Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   þri 09. apríl 2024 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aachen
Nýir tímar en sá frækni sigur er alltaf góð áminning
Icelandair
Núna eru nýir tímar.
Núna eru nýir tímar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís var einnig í liðinu árið 2017.
Glódís var einnig í liðinu árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland og Þýskaland eigast við í 19. sinn í kvennalandsleik á eftir. Flautað verður til leiks klukkan 16:10 að íslenskum tíma í Aachen en leikurinn er í undankeppni EM.

Það er ekki hægt að segja að Ísland hafi riðið feitum hesti í gegnum tíðina gegn Þýskalandi en Þjóðverjar hafa unnið 17 af 18 leikjum þjóðanna til þessa.

Ísland hefur þá skorað sex mörk gegn 66 leikjum Þýskalands.

En það er þessi eini leikur sem leyfir manni að dreyma. Leikurinn í Wiesbaden í októbermánuði árið 2017. Sá leikur endaði með mögnuðum 2-3 sigri Íslendinga og er hann góð áminning um að Ísland geti unnið Þýskaland ef nánast allt gengur upp.

Það er svo sannarlega einn fræknasti sigur sem íslenskt landslið hefur unnið frá upphafi. Það var fyrsta tap Þýskalands í undankeppni í næstum því 20 ár.

„Ég held að það séu ekki margir í Þýskalandi eða Bayern sem búast við því (að Íslandi taki stig eða sigur á eftir). Það væri ótrúlega skemmtilegt," sagði Glódís Perla Viggósdóttir í samtali við Fótbolta.net í gær en hún er fyrirliði Bayern og þekkir þýska liðið vel. Hún er þá ein af þremur sem voru hluti af hópnum árið 2017 en hinar tvær eru Ingibjörg Sigurðardóttir og Sandra María Jessen.

„Ég held að ég muni aldrei gleyma þeim leik. Þetta var eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert með landsliðinu. Þessi sigur var ekki eitthvað sem við eða einhver annar í heiminum bjóst við. Það gefur okkur ákveðna trú á því að við getum unnið Þýskaland," sagði Glódís við Fótbolta.net í september síðastliðnum.

Síðustu þrír leikir gegn Þýskalandi hafa ekki verið góðir, en núna eru nýir tímar og nýjar stjörnur hafa fæðst. Það er kominn tími á að sjokkera Evrópu á nýjan leik og það er alveg hægt ef okkar stelpur eiga sinn besta leik. Þróunin á liðinu hefur verið nokkuð góð í síðustu leikjum og vonandi heldur það áfram í dag.


Athugasemdir
banner
banner
banner