Höjlund kominn með verðmiða - Gibbs-White mun kosta sitt - Fer Saliba frítt eftir tvö ár?
   fim 10. apríl 2025 22:03
Brynjar Ingi Erluson
Amorim: Hef gert fleiri mistök en þeir
Ruben Amorim
Ruben Amorim
Mynd: EPA
Andre Onana
Andre Onana
Mynd: EPA
Ruben Amorim, stjóri Manchester United, vildi ekki skella allri skuldinni á kamerúnska markvörðinn Andre Onana eftir 2-2 jafnteflið gegn Lyon í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

Onana gerði sig sekan um tvenn mistök sem kostuðu United tvö mörk.

Kamerúninn hefur verið veiki hlekkurinn í liði United í einhvern tíma og er sá markvörður sem kostar lið sitt flest mistök ef horft er á markverði í ensku úrvalsdeildinni síðustu tvö tímabil.

Amorim kom Onana til varnar í viðtali eftir leik og sagði mistökin einnig vera í hlut liðsfélaga hans.

„Við erum mjög vonsviknir að fá á okkur mark svona seint. Við áttum að taka eins marks forystu inn í næsta leik, en næsti leikur er heima og við munum reyna að vinna hann.“

„Það er mikilvægt að setja einbeitingu á næsta leik í deildinni og síðan hugsa um seinni leikinn gegn Lyon. Þegar einn leikmaður gerir mistök, þá gerir allt liðið mistök og þannig verður það áfram.“

„Við munum halda áfram að gera sömu hlutina. Við æfum, horfum á leiki og reynum að velja besta byrjunarliðið fyrir hvern einasta leik,“
sagði Amorim.

Amorim ræddi ekki við Onana strax eftir leik og sagðist sjálfur hafa gert fleiri mistök en liðið síðustu mánuði.

„Svona ef ég á að vera hreinskilinn þá sá ég hann ekki. Ég nota þessar mínútur til að róa mig niður svo ég segi réttu hlutina. Ef þú horfir á tímabilið þá hef ég gert fleiri mistök en þeir á síðustu mánuðum. Þetta getur gerst en það góða er að við eigum annan leik sem getur breytt öllu,“ sagði Amorim.
Athugasemdir
banner