„Ég gat ekki beðið um meira frá strákunum. Það voru vonbrigði að fá á okkur mark á þennan hátt, en vil samt hrósa stráknum (Hugo Ekitike) fyrir þetta laglega skot,“ sagði Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, eftir svekkjandi 1-1 jafntefli gegn Eintracht Frankfurt í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.
Tottenham var óheppið að vinna ekki Frankfurt í Lundúnum þó gestirnir hafi náð forystunni í gegnum Ekitike.
Pedro Porro jafnaði metin með skemmtilegri hælspyrnu og í síðari hálfleiknum keyrðu heimamenn á Frankfurt og áttu meðal annars tvær tilraunir í slá, en boltinn vildi bara ekki inn.
Postecoglou vonar að Tottenham endurtaki frammistöðuna í seinni leiknum sem fer fram í Þýskalandi.
„Mér fannst við vera með góða stjórn á leiknum fyrir fyrsta markið og var ég viss um að það myndi bera ávöxt í síðari hálfleiknum og það gerði það á öllum sviðum, en vantaði bara mörkin.“
„Öll önnur kvöld hefðum við unnið þægilegan sigur, en núna þurfum við að fara þangað og við vissum að þetta gæti ráðist í seinni leiknum. Möguleikinn er samt til staðar ef við spilum eins og við gerðum í kvöld.“
„Ég býst ekki við því að seinni leikurinn verði opinn. Þetta verður í járnum og mun ráðast á augnablikum. Hann verður mjög jafn og gæti jafnvel farið í framlengingu þannig við þurfum að allir verði klárir í þann slag. Góða er að við erum búnir að endurheimta flesta til baka og þeir heilir sem er mikilvægt,“ sagði Ástralinn við fjölmiðla eftir leikinn.
Athugasemdir