Höjlund kominn með verðmiða - Gibbs-White mun kosta sitt - Fer Saliba frítt eftir tvö ár?
   fim 10. apríl 2025 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Postecoglou ósáttur: Fjölmiðlar breyta gulli í skít
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ange Postecoglou er æfur yfir þeirri neikvæðu fjölmiðlaumfjöllun sem Tottenham hefur verið að fá að undanförnu. Hann segir að þegar liðið gerir eitthvað gott þá sé því snúið í eitthvað slæmt af fjölmiðlum.

Tottenham tekur á móti Eintracht Frankfurt í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld og svaraði spurningum á fréttamannafundi. Þar var hann meðal annars spurður út í Mathys Tel sem heimtaði að taka vítaspyrnu í sigri gegn Southampton um helgina.

Staðan var 2-1 fyrir Tottenham í uppbótartíma í leik þar sem Brennan Johnson var búinn að skora tvennu. Spurs fékk vítaspyrnu í uppbótartíma og vildi Johnson fara á punktinn til að fullkomna þrennuna, en Tel er vítaskytta liðsins og leyfði honum það ekki. Postecoglou var ekki sáttur með spurningar fréttamanna um atvikið.

„Þetta er ótrúlegt, það er bókstaflega verið að breyta gulli í skít þegar það kemur að Tottenham. Í alvörunni. Ef við erum 2-1 yfir í leiknum gegn Frankfurt og fáum vítaspyrnu í uppbótartíma, þá vil ég að besta vítaskyttan okkar taki hana," sagði Postecoglou og hélt svo áfram.

„Fólk gagnrýnir þetta félag oft fyrir að takast ekki að sigra titla en ég skal segja ykkur það að hugarfar sigurvegara á síðustu mínútu leiksins er að skora mark. Við skoruðum mark og unnum leikinn en einhvern veginn, í þessum samhliða alheimi þar sem Tottenham gerir allt rangt, er verið að tala um það í neikvæðu ljósi."

Þjálfarastarf Ange Postecoglou er í bráðri hættu eftir mikið vonbrigðatímabil með Tottenham en óljóst er hvort Evrópudeildartitill geti bjargað honum frá brottrekstri.

„Vonandi tekst okkur að bjarga þessari leiktíð með titli en ég er ekki að reyna að sannfæra almenning um neitt. Fólki líður almennt eins og ég verði rekinn þó að við vinnum Evrópudeildina.

„Ég er ekki að hugsa um það, ég er að hugsa um næsta leik í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Það er mikilvægt að við höldum áfram að berjast, hafa trú og spila okkar fótbolta. Ég veit að ég mun ekki gefast upp."

Athugasemdir
banner