Höjlund kominn með verðmiða - Gibbs-White mun kosta sitt - Fer Saliba frítt eftir tvö ár?
   fim 10. apríl 2025 19:36
Brynjar Ingi Erluson
Fimm úrvalsdeildarfélög hafa rætt við umboðsmann Huijsen
Dean Huijsen
Dean Huijsen
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Fimm ensk úrvalsdeildarfélög hafa rætt við umboðsmann spænska landsliðsmannsins Dean Huijsen en þetta segir blaðamaðurinn áreiðanlegi, David Ornstein, á NY Times.

Huijsen er 19 ára gamall miðvörður sem hefur blómstrað hjá Bournemouth á leiktíðinni.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann stimplað sig inn sem einn besti miðvörður deildarinnar og hefur átt stóran þátt í velgengni Bournemouth sem er í baráttu um að komast í Evrópukeppni.

Frammistaða hans hefur ekki farið framhjá stórliðunum í Evrópu og sérstaklega á Englandi, en Ornstein segir fimm félög hafa rætt við umboðsmann hans.

Arsenal, Chelsea, Liverpool, Newcastle United og Tottenham Hotspur eru þau félög sem hafa átt í viðræðum við umboðsmanninn, en kaupverðið sjálft verður engin fyrirstaða.

Huijsen er með 50 milljóna punda riftunarákvæði í samningnum og veit Bournemouth vel af möguleikanum á að missa hann í sumar.

Bournemouth og Huijsen vilja að niðurstaða muni liggja fyrir eins fljótt og hægt er. Bournemouth vill geta undirbúið sig undir sumargluggann til að finna arftaka hans og þá vill Huijsen koma sér fyrir hjá nýju félagi áður en undirbúningstímabilið fer af stað.

Það er alls ekkert öruggt að hann verði áfram á Englandi en Real Madrid hefur einnig mikinn áhuga á Huijsen sem spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir Spán í síðasta mánuði.

Varnarmaðurinn er fæddur í Hollandi en flutti ungur að aldri til Spánar ásamt fjölskyldu sinni og lítur hann á Spán sem sitt heimaland. Það gæti því reynst ensku félögunum erfitt að sannfæra hann um að koma ef fimmtánfaldir Evrópumeistarar Real Madrid banka á dyrnar.
Athugasemdir
banner
banner