Manchester United er enn í góðum möguleika á að komast í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa gert 2-2 jafntefli við Lyon í fyrri leik liðanna í Frakklandi í kvöld. Tvö mistök frá kamerúnska markverðinum André Onana gæti hins vegar gert Ruben Amorim örlítið áhyggjufullan fyrir síðari leikinn.
Lítið var um færi fyrstu tuttugu mínúturnar en eftir það færðist fjör í leikinn.
Bruno Fernandes, fyrirliði United, fékk gott færi á 23. mínútu eftir undirbúning Alejandro Garnacho en boltinn fór af varnarmanni og aftur fyrir endamörk.
Þremur mínútum síðar komst Lyon yfir með smá hjálp frá kamerúnska markverðinum André Onana. Thiago Almada átti aukaspyrnu frá vinstri og inn á teiginn. Enginn varnarmaður náði að taka á móti eða hreinsa boltanum frá og varð sendingin því að skoti.
Onana skutlaði sér klaufalega á boltann þannig hann skoppaði yfir hann og í netið. Afar neyðarlegt fyrir Onana, en það var bara í gær sem fyrrum United-maðurinn Nemanja Matic sagði að Onana væri einn versti markvörður í sögu félagsins. Matic er í dag á mála hjá Lyon og virðist hafa komist í hausinn á Onana sem sagði sjálfur að United væri miklu betra lið en Lyon.
United kom til baka áður en hálfleikurinn var úti og þar var að verki franski táningurinn Leny Yoro sem var að skora sitt fyrsta mark fyrir enska félagið.
Manuel Ugarte átti tilraun sem Yoro stýrði í netið. Hvergi betra að skora fyrsta markið en í heimalandinu.
Yoro var hættulegsta vopn United framan af. Hann átti skot fyrir utan teig sem hafnaði rétt framhjá eftir um klukkutímaleik.
United fór að sækja meira á Lyon. Garnacho átti tilraun sem Lucas Perri varði í markinu og þá fékk Casemiro enn betra færi en skallaði boltanum framhjá.
Alexandre Lacazette skapaði sér bestu færi Lyon en fór illa með þau í bæði skiptin. Undir lokin gat hann náð í mikilvægt mark fyrir seinni leikinn, en brást bogalistin.
Hollenski varamaðurinn Joshua Zirkzee kom United yfir með skalla eftir fyrirgjöf Fernandes og var United að fara taka með sér gott veganesti inn í seinni leikinn eða svo héldu leikmenn liðsins þangað til komið var á fimmtu mínútu í uppbótartíma.
Eftir smá darraðardans í teig United náði Nico Tagliafico skoti sem Onana ætlaði að reyna handsama, en missti boltann beint fyrir framan sig og á Rayan Cherki sem skoraði af öryggi.
Hrikalega vondur leikur hjá Onana sem hefur verið mikið gagnrýndur síðan hann kom frá Inter fyrir tveimur árum.
Úrslitin sem slík eru ekki það slæm fyrir United og einvígið enn galopið.
Tottenham Hotspur gerði á meðan 1-1 jafntefli við Eintracht Frankfurt í Lundúnum.
Einn heitasti framherji Evrópu, Hugo Ekitike, kom Frankfurt í óvænta forystu á 6. mínútu með frábæru skoti. Tuttugasta mark hans á tímabilinu.
Tottenham náði að svara ágætlega eftir markið. Dominic Solanke og Brennan Johnson fengu góð skallafæri áður en pressan loksins skilaði sér er Pedro Porro skoraði með hælnum eftir sendingu James Maddison.
Lucas Bergvall og Rodrigo Bentancur settu báðir boltann í þverslá í síðari hálfleiknum. Bergvall átti hörkuskot af löngu færi á meðan Bentancur skallaði boltann í slá eftir hornspyrnu.
Kaua Santos, markvörður Frankfurt, varði eins og berserkur í síðari hálfleiknum og hélt þýska liðinu á lífi í rimmunni. Lokatölur 1-1 og Tottenham óheppið að fara ekki með forystu inn í seinni leikinn.
Rangers og Athletic Bilbao gerðu markalaust jafntefli í Skotlandi en skoska liðið lék manni færri frá 13. mínútu eftir að Robin Propper, varnarmaður liðsins, fékk að líta rauða spjaldið eftir brot á Nico Williams. Hann fékk upphaflega gult en litnum var breytt eftir skoðun VAR.
Það var nóg af drama í leiknum. Mark var tekið af Alex Berenguer vegna rangstöðu í aðdragandanum og þá fengu gestirnir vítaspyrnu er Dujon Sterling handlék boltann í eigin teig.
Berenguer fór á punktinn en Liam Kelly sá við honum með löppunum.
Markalaust jafntefli niðurstaðan og allt opið fyrir seinni leikinn sem fer fram í Baskalandi.
Tottenham 1 - 1 Eintracht Frankfurt
0-1 Hugo Ekitike ('6 )
1-1 Pedro Porro ('26 )
Rangers 0 - 0 Athletic
0-0 Alejandro Berenguer ('82 , Misnotað víti)
Rautt spjald: Robin Propper, Rangers ('13)
Lyon 2 - 2 Manchester Utd
1-0 Thiago Almada ('26 )
1-1 Leny Yoro ('45 )
1-2 Joshua Zirkzee ('88 )
2-2 Rayan Cherki ('90 )
Athugasemdir