Portúgalski þjálfarinn Jose Mourinho er þegar farinn að undirbúa næsta tímabil en Sport í Þýskalandi segir hann vilja fá Thomas Müller til Fenerbahce í Tyrklandi.
Reynsluboltarnir tveir, Edin Dzeko og Dusan Tadic, eru á förum frá Fenerbahce í sumar og vill Mourinho leysa þá af hólmi með því að fá annan reynslumiklan leikmann inn.
Sport segir að Fenerbahce sé í viðræðum við Müller og er það tilbúið að bjóða honum eins árs samning með möguleika á að framlengja um annað ár.
Müller, sem er 35 ára gamall, staðfesti á dögunum að hann sé á förum frá Bayern. Þjóðverjinn er uppalinn hjá Bayern og spilað lykilhlutverk síðan hann spilaði sinn fyrsta leik árið 2008.
Félög í MLS-deildinni í Bandaríkjunum hafa einnig rennt hýru auga til Müller en hann verður ekki klár í að spila fyrir nýtt félag fyrr en eftir HM félagsliða.
Athugasemdir