Fyrr í vikunni var tilkynnt um ráðningu á nýjum U17 landsliðsþjálfara kvenna.
Magnús Örn Helgason var ráðinn og tekur hann við starfinu 10. september næstkomandi.
Magnús Örn er 32 ára gamall Seltirningur sem lék upp yngri flokka Gróttu áður en hann sneri sér að þjálfun. Magnús er með UEFA-A og UEFA-Youth þjálfaragráður, B.Sc í íþróttafræði og hefur hann þjálfað flesta aldurshópa hjá Gróttu auk þess að gegna starfi yfirþjálfara yngri flokka árin 2014-2017.
Síðustu ár hefur Magnús komið að starfi yngri landsliðanna, m.a. með greiningarvinnu og annarri aðstoð í verkefnum U17 kvenna, auk æfinga, úrtökumóta og kennslu á þjálfaranámskeiðum.
Magnús Örn hefur þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Gróttu síðustu þrjú ár og lætur hann af því starfi að loknu yfirstandandi keppnistímabili.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að margar góðar umsóknir hafi borist. „Það voru margar góðar umsóknir, já. Arnar Þór (Viðarsson) leiddi þetta ferli en ég veit að það komu margar umsóknir sem voru mjög góðar. Þetta var erfitt," segir Klara.
„Það var góð blanda af körlum og konum, og vel hæfum og reyndum einstaklingum. Það voru bæði karlar og konur sem fóru í viðtöl hjá Arnar. Það var mjög vandað ferli sem þar átti sér stað og unnið eftir ákveðnum forsendum sem við lögðum okkur fyrir áður en við lögðum mat á umsóknir."
Engin kona aðalþjálfari
Það voru bæði konur og karla sem sóttu um starfið, en Magnús fékk það að lokum eftir viðtöl við umsækjendur. Það eru reglur hjá UEFA um að konur séu í þjálfarateymum hjá U17, U19 og A-landsliðum kvenna.
Það eru karlar aðalþjálfarar í landsliðunum en það eru konur í teymunum, að sögn Klöru. Hún bendir á að í A-landsliði kvenna sé kona styrktarþjálfari og í yngri landsliðum hafi konur komið inn sem þjálfarar og séð um greiningarvinnu.
„Það eru ákvæði í reglugerðum UEFA um U17, U19 og A-kvenna að í tilteknum tilfellum þurfi að vera kvenkyns þjálfari í þjálfarateyminu," segir Klara.
„Þjálfarateymi er víðtækt orð. Við erum með kvenkyns styrktarþjálfara í A-landsliði kvenna. Í U17 og U19 kvenna eru ekki alltaf sömu aðstoðarþjálfarar og sömu starfsmenn að fara í hvert sinn."
Á Norðurlandamóti U16 kvenna fyrr í sumar voru tvær konur skráðar sem aðstoðarþjálfarar á leikskýrslum; Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir og Aldís Ylfa Heimisdóttir.
„Stefna okkar er sú að ráða hæfasta þjálfarann fyrir hvert landslið hverju sinni. Þann sem passar stefnumótun og afreksstefnu KSÍ. Síðan líka erum við meðvitum um að við þurfum að fjölga konum í þjálfarastörfum. Ein af þeim aðgerðum sem við erum að vinna í til að gera það er að vinna að því að styðja við konur í þjálfaramenntun," segir Klara.
Elísabet Gunnarsdóttir ræddi við KSÍ um að taka við sem A-landsliðsþjálfari kvenna fyrr á þessu ári.
„Við vorum á endanum ekki tilbúin að taka skrefið til baka og gera landsliðsþjálfarastarfið að hlutastarfi. Um það snýst þetta mál. Það eru nokkur ár síðan að þetta starf var gert að fullu starfi. Eins miklar mætur og við höfum á Elísabetu, þó að við höfum rætt við fleiri umsækjendur eins og hún vissi, þá töldum við það ekki ásættanlegt [að hún þjálfaði félagslið á sama tíma]," sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, við Vísi um það mál.
Athugasemdir