Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
   sun 16. júní 2024 08:20
Elvar Geir Magnússon
Úr úkraínsku þriðju deildinni í gullskóinn á Spáni
Artem Dovbyk er markakóngur La Liga.
Artem Dovbyk er markakóngur La Liga.
Mynd: Getty Images
Dovbyk er með 10 mörk í 28 landsleikjum fyrir Úkraínu.
Dovbyk er með 10 mörk í 28 landsleikjum fyrir Úkraínu.
Mynd: EPA
Úkraína hefur leik á EM á morgun þegar liðið mætir Rúmeníu. Sá sem leiðir sóknarlínu Úkraínu er hinn stóri og stæðilegi Artem Dovbyk, sem varð markakóngur spænsku deildarinnar á nýafstaðinni leiktíð.

Dovbyk var funheitur með spútnikliði Girona og er Atletico Madrid nú að reyna að vinna í að landa honum.

Við höfum áður fjallað um vegferð þessa 26 ára leikmanns sem danska félagið Midtjylland fékk til sín í janúar 2018, eftir að hafa fylgst grannt með honum í sex mánuði. Stærstan hluta þess tíma hafði Dovbyk leikið í úkraínsku 3. deildinni.

Floppaði í Danmörku en var óstöðvandi á Spáni
Dovbyk skoraði bara eitt mark í átján leikjum fyrir Midtjylland og var í svipuðu brasi með Sönderjyske þar sem hann var á láni.

Honum gekk illa að skora og spilmínútunum fækkaði svo hann fór heim til Úkraínu 2020 með skottið á milli lappanna og samdi við Dnipro-1. Hann fór hægt af stað í markaskorun hjá liðinu en svo fóru mörkin að detta inn.

Eftir innrás Rússa inn í Úkraínu var tímabilið 2021-22 stöðvað um skeið. Dovbyk fór tímabundið til Dynamo Kiev til að halda sér í formi þar sem liðið var að leika æfingaleiki í Evrópu. Hann varð svo markakóngur úkraínsku deildarinnar tímabilið 2022-23.

Í fyrrasumar var Dovbyk keyptur til Girona. Hann kostaði um sjö milljónir evra sem verður að teljast heldur betur lítið þegar horft er til þess sem Dovbyk hefur skilað.


Athugasemdir
banner