Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
banner
   þri 22. október 2024 13:39
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Álagið var of mikið og miðasalan stöðvuð
Stuðningsmenn Víkings.
Stuðningsmenn Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar fagna marki.
Víkingar fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðasölukerfi Stubbs hrundi þegar miðasala var sett af stað fyrir leik Víkings og Breiðabliks í lokaumferð Bestu deildar karla. Um er að ræða hreinan úrslitaleik sem mun ráða Íslandsmeistaratitilinum.

Víkingar tilkynntu fyrirkomulagið fyrir miðasöluna í morgun en það átti að vera svona:

12:00 – ársmiðahafar Víkings fá sent SMS með hlekk á miðasölu í númeruð sæti í stúku.
13:00 – ársmiðahafar Víkings fá sent SMS hlekk á miðasölu í stæði.
14:00 – almenn miðasala til Víkinga hefst, séu miðar enn til.

Þegar salan fór af stað, þá var kerfið hins vegar fljótt að hrynja út af álagi.

Víkingar sendu frá sér yfirlýsingu vegna málsins. „Knattspyrnudeild Víkings harmar þá villu sem kom upp við sölu miða til ársmiðahafa á leik Víkings og Breiðablik."

„Miðasölufyrirtækið Stubbur, sem hefur séð um alla sölu miða á Bestu deildina fyrir félög landsins og heldur utan um ársmiða stuðningsfólks Víkings, fékk það verkefni að sjá um miðasöluna. Því miður réð kerfi fyrirtækisins ekki við verkefnið og álagið varð of mikið. Stubbur hefur nú beðist afsökunnar og eru að vinna í málinu. Miðasalan hefur verið stöðvuð þar til kerfið er komið í lag og verður ársmiðahöfum tilkynnt um það þegar hægt er að endurhefja hana."

Stubbur sendi svo frá sér yfirlýsingu fyrir tæpum hálftíma síðan. „Við erum að komast vel áleiðis með lausn á villunni sem kom upp í forsölunni kl. 12:00. Við sendum út SMS með að minnsta kosti 30 mínútna fyrirvara áður en salan hefst aftur til að tryggja sanngirni. Þökkum ykkur fyrir þolinmæðina!"

Það mun án efa seljast upp á mettíma þegar miðasalan fer í gang en færri munu komast að en vilja á þennan stórmerkilega leik.


Athugasemdir
banner