Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
banner
   þri 22. október 2024 18:46
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Milan og Mónakó unnu á heimavelli
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveimur fyrstu leikjum dagsins er lokið í Meistaradeild Evrópu, þar sem AC Milan og AS Mónakó unnu á heimavelli.

Milan tók á móti Club Brugge í áhugaverðum slag þar sem jafnræði ríkti með liðunum í fyrri hálfleik, en Christian Pulisic tók forystuna fyrir Milan með marki beint úr hornspyrnu.

Sex mínútum síðar fékk Raphael Onyedika beint rautt spjald fyrir að fara í ljóta tæklingu þar sem hann var alltof seinn og missti af boltanum, en endaði á að traðka með takkana á andstæðingi sínum.

Tíu leikmenn Club Brugge hófu seinni hálfleikinn af krafti og jöfnuðu leikinn á 51. mínútu, en heimamenn í Mílanó létu það ekki slá sig út af laginu og gerðu tvöfalda skiptingu sem átti eftir að reynast vel.

Noah Okafor og Samuel Chukwueze komu inn á 60. mínútu og einni mínútu síðar var Okafor búinn að leggja upp mark fyrir miðjumanninn knáa Tijjani Reijnders.

Tíu mínútum eftir það var komið að Chukwueze að leggja upp fyrir Reijnders til að innsigla 3-1 sigur.

Hinn 16 ára gamli Francesco Camarda kom inn af bekknum á 75. mínútu og skallaði boltann í netið. Hann fagnaði afar ákaft þar sem hann hélt að hann væri orðinn yngsti markaskorari í sögu Meistaradeildarinnar, en gleðin var þó ekki langlíf þar sem markið var dæmt ógilt vegna rangstöðu eftir nánari athugun í VAR-herberginu.

Camarda fékk gult spjald fyrir fagnaðarlætin og beindust myndavélarnar að fjölskyldu hans sem réði ekki við tilfinningarnar uppi í stúku.

Takumi Minamino, fyrrum leikmaður Liverpool, skoraði þá tvennu í 5-1 sigri Mónakó gegn Crvena zvezda.

Breel Embolo og Wilfried Singo skoruðu einnig og lögðu upp í stórsigrinum.

Milan var að ná í sín fyrstu stig á tímabilinu í Meistaradeildinni, eftir tapleiki gegn Liverpool og Bayer Leverkusen í fyrstu umferðunum.

Mónakó er hins vegar komið á topp deildarinnar með 7 stig eftir 3 umferðir.

Milan 3 - 1 Club Brugge
1-0 Christian Pulisic ('34 )
1-1 Kyriani Sabbe ('51 )
2-1 Tijani Reijnders ('61 )
3-1 Tijani Reijnders ('71 )
Rautt spjald: Raphael Onyedika, Club Brugge ('40)

Monaco 5 - 1 Crvena Zvezda
1-0 Takumi Minamino ('20 )
1-1 Cherif Ndiaye ('27 , víti)
2-1 Breel Embolo ('45 )
3-1 Wilfried Singo ('54 )
4-1 Takumi Minamino ('70 )
5-1 Maghnes Akliouche ('90 )
Athugasemdir
banner