Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   þri 22. október 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Hafi líklega ekki skipt neinu máli að nafnið var hvergi á listanum
Arnar verður upp í stúku í úrslitaleiknum.
Arnar verður upp í stúku í úrslitaleiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkings.
Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarþjálfari Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur mætir Breiðabliki á sunnudaginn.
Víkingur mætir Breiðabliki á sunnudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, verður í leikbanni í lokaumferð Bestu deildarinnar. Víkingar mæta þá Breiðabliki í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Víkingar eru með yfirhöndina fyrir leikinn þar sem þeir eru með mun betri markatölu. Liðin eru hins vegar jöfn að stigum.

Arnar hefur safnað fjórum gulum spjöldum og verður því ekki á hliðarlínunni næsta sunnudag. Hann mun væntanlega taka sér stöðu við hlið vallarþularins í boxinu eins og hann hefur verið vanur að gera þegar hann er í banni á heimavelli.

Hann fékk gult spjald þegar hann hljóp inn á völlinn er Víkingur vann dramatískan sigur gegn ÍA um síðustu helgi. Víkingar skoruðu þar sigurmarkið í blálokin og héldu sér á toppnum. Arnar vissi ekki að hann væri á leið í bann þegar hann fékk spjaldið.

„Ég hafði ekki hugmynd um það," segir Arnar við Fótbolta.net.

„Við vorum aðeins að fara yfir listann hverjir væru á hættusvæði fyrir leikinn, án þess þó að gera mikið úr því. Þú vilt ekki breyta leikstíl leikmanna. Þetta snerist aðallega um að fá ekki heimskuleg gul spjöld; sparka boltanum í burtu og þess háttar."

„Mitt nafn var hvergi á þeim lista. Ég verð samt að segja að út frá þeim tilfinningum sem fylgdu sigurmarkinu hjá Dani, þá held ég að það hafi ekki skipt neinu máli. Ég hefði örugglega hlaupið inn á völlinn hvort sem er," sagði Arnar og hló.

Arnar hefur fengið þrjú gul spjöld í Bestu deildinni en hann fékk líka gult í Meistarakeppni KSÍ og hún telur með í agadómum deildarinnar. Eru þetta ekki skrítnar reglur?

„Það voru mín mistök að vera ekki meira 'on it' þegar kemur að spjaldasöfnun. Þetta eru bara reglur. Það má fabúlera fram og til baka um hitt og þetta, en þetta eru bara reglur. Þess vegna eru það mín mistök, að hafa ekki vitað af þessu," sagði Arnar.

Hafa reynsluna
Leikurinn á sunnudag verður fimmti leikurinn í sumar þar sem Arnar tekur út bann en hann hefur tvívegis fengið rautt. Sölvi Geir Ottesen aðstoðarmaður Arnars stýrir Víkingi frá hliðarlínunni á sunnudaginn næsta.

„Mér leið ekki vel fyrstu klukkutímana eftir að ég komst að þessu. Bara alls ekki. Svo heldur lífið áfram og þú þarft að vinna með þessari staðreynd. Okkur hefur gengið vel þegar ég hef verið í banni. Sölvi er með svakalega nærveru á hliðarlínunni og við erum með mjög góðan strúktúr. Menn vita hvað þeir eiga að gera. Við undirbúum leikinn mjög vel og erum með mörg plön í gangi," segir Arnar.

„Við erum liggur við með doktorsgráðu í þessu. Ég treysti þeim fullkomlega fyrir þessu verkefni."

„Ég er ekki mjög stoltur að hafa verið í fimm leiki frá í sumar. Það er ekki góð tölfræði. En kannski er einhver tilgangur á bak við þetta, maður getur hugsað það þannig. Sölvi hefur fengið góða eldskírn áður en kemur að stórleiknum," sagði þjálfari Víkinga að lokum.
Athugasemdir
banner
banner