Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
banner
   þri 22. október 2024 13:06
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Yfirlýsing Stjörnunnar: Stefna félagsins að öllum iðkendum sé sýnd sama virðing
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Í gær var fjallað um úrslitaleik C-liða í 4. flokki þar sem KA og Stjarnan mættust á heimavelli KA fyrr í haust. Stjarnan kærði þau úrslit og var niðurstaða kærunnar sú að endurspila skildi framlengingu leiksins því hún hafi ekki verið rétt framkvæmd þegar leikurinn fór fram.

Einungis voru spilaðar 2x5 mínútur þegar átti að spila 2x10 mínútur. Í kjölfarið var svo gripið til vítaspyrnukeppni þar sem umferðirnar voru einungis þrjár en þær hefðu átt að vera fimm. KA vann leikinn eftir þrjár umferðir af vítaspyrnukeppni. Áður en framlengingin hófst var báðum liðum gert ljóst að framlengingin yrði einungis tíu mínútur. KA sá um að manna dómara á leikinn en gera þurfti dómarabreytingu fyrir framlenginguna.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ komst að þeirri niðurstöðu að framlengingin skildi endurtekin og fer hún fram á morgun á heimavelli KA. KA skal greiða ferðakostnað Stjörnuliðsins til og frá leikstað.

Akureyri.net vakti fyrst athygli á málinu í gærkvöldi og Fótbolti.net fylgdi svo á eftir. Fáir skilja sýn Stjörnunnar á málið og gaf félagið því út yfirlýsingu rétt í þessu.

Félagið útskýrir ákvörðun sýna að kæra úrslitin og lýsir yfir vonbrigðum að „forráðamenn KA hafi ekki sýnt þann drengskap að leggja inní umræðuna sem hefur skapast þá einföldu staðreynd að menn hafi gert mistök og leiðrétta þær rangfærslur sem koma þarna fram."

Yfirlýsing Stjörnunnar
Umtalsverð umfjöllun hefur átt sér stað í kjölfar þess að 4. flokkur karla spilaði úrslitaleik á móti KA þar sem framkvæmd leiksins fór úrskeiðis hjá KA. Það er gríðarlega mikilvægt að því sé haldið til haga að við sem félag gerum ekki greinarmun á getustigi þegar kemur að metnaði við að framkvæmd leikja sé í lagi og þá allra síst úrslitaleikur Íslandsmóts. Sú umræða sem hefur skapast á samfélagsmiðlum í kjölfarið er byggð á upphrópunum og eftir atvikum, röngum upplýsingum.

Ljóst er að bæði leiktími framlengingar var helmingi styttri en á að vera skv. reglum KSÍ og að fjöldi vítaspyrna var umtalsvert færri en reglur gera ráð fyrir. Það eru vonbrigði að forráðamenn KA hafi ekki sýnt þann drengskap að leggja inní umræðuna sem hefur skapast þá einföldu staðreynd að menn hafi gert mistök og leiðrétta þær rangfærslur sem koma þarna fram. Í þessu tilviki sem og öðrum þá er það stefna Stjörnunnar að öllum iðkendum sé sýnd sama virðing á hvaða getustigi sem er hvort heldur sem er í framkvæmd leikja eða í þeirri umræðu sem skapast hefur eftir á. Sannleikurinn er sá að þjálfarar liðsins og forráðamenn félagsins tóku þá ákvörðun að kæra úrslitin þannig að atvik sem þetta myndi ekki endurtaka sig.
Áfram fótboltinn og gerum öllum jafn hátt undir höfði og vöndum okkur í því mikilvæga starfi sem okkur er treyst fyrir.

Skíni Stjarnan!
Athugasemdir
banner
banner
banner