Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
banner
   þri 22. október 2024 17:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Næsta tímabil í mikilli hættu hjá Sigurbergi Áka
Sigurbergur meiðist í leiknum.
Sigurbergur meiðist í leiknum.
Mynd: Mummi Lú
Sigurbergur Áki Jörundsson varð fyrir áfalli í leiknum gegn KR á sunnudag þegar hann sleit krossband í hné. Hann verður fjarri góðu gamni langt fram á næsta ár. Leikmaðurinn staðfesti tíðindin í samtali við Fótbolta.net og segir fyrsta mál á dagskrá að finna tíma í aðgerð.

Það er talað um að fótboltamenn séu um níu mánuði að jafna sig eftir aðgerð vegna krossbandsslits.

Sigurbergur Áki er tvítugur og getur bæði spilað sem djúpur miðjumaður og miðvörður. Hann var borinn af velli á 70. mínútu á sunnudag. Þetta er í annað sinn á ferlinum sem hann slítur krossband.

Hann er uppalinn í Stjörnunni en hélt í Árbæinn fyrir lok félagaskiptagluggans í vor. Hann hefur verið í byrjunarliði Fylkis í síðustu þrettán leikjum liðsins.

Hann á að baki 16 leiki fyrir yngri landsliðin, þar af þrettán fyrir U19 þar sem hann var hluti af liðinu sem fór á lokamót EM sumarið 2023.

Fylkir spilar í Lengjudeildinni á næsta tímabili. Framundan er lokaumferðin í Bestu deildinni þar sem Fylkir heimsækir Vestra.
Athugasemdir
banner
banner