Það er mikið af orðrómum í gangi þessa dagana í kringum Real Madrid þar sem meiðslavandræði herja á varnarlínu liðsins.
Ýmsir varnarmenn hafa verið orðaðir við félagaskipti til stórveldisins og eru þeir allir á sama máli. Þeir eru stoltir að vera orðaðir við Real Madrid en segjast ýmist ekki vera búnir að fá tilboð eða ekki búnir að taka ákvörðun.
Einn þeirra er kanadíski bakvörðurinn Alphonso Davies sem verður samningslaus eftir tímabilið með FC Bayern. Hann fær því leyfi til að ræða við önnur félög eftir áramót, ef hann verður ekki búinn að skrifa undir nýjan samning.
Einhverjir fjölmiðlar hafa haldið því fram að Davies sé nú þegar búinn að semja við Real og muni ganga til liðs við félagið á frjálsri sölu næsta sumar. Hann myndi þannig feta í fótspor David Alaba sem fór sömu leið sumarið 2021.
„Það er ekki satt að við erum búnir að semja við Real Madrid. Það er rétt að Alphonso hefur úr mjög mörgum tilboðum að velja, en við höfum ekki samþykkt neitt tilboð eins og staðan er í dag," segir Nedal Huoseh umboðsmaður Davies. „Við erum líka að skoða samningstilboð frá FC Bayern. Fréttamenn sem halda öðru fram hafa rangt fyrir sér."
Sergio Ramos er goðsögn hjá Real Madrid og hefur verið orðaður við endurkomu til félagsins þrátt fyrir að vera 38 ára gamall. Hann er sagður vera spenntur fyrir því að snúa aftur til félagsins þó að líkurnar séu hverfandi.
Mario Hermoso hefur einnig verið orðaður við félagaskipti frá Roma. Þessi spænski varnarmaður hefur fenginn lítinn spiltíma á Ítalíu, talsvert minni en hann fékk hjá stórliði Atlético Madrid í spænska boltanum, og vill snúa aftur á heimaslóðir.
„Ég hef heyrt af áhuga frá Real Madrid og það er heiður að vera orðaður við þetta félag, en ég hef ekki heyrt neitt frá þeim. Ég var í akademíunni hjá Real Madrid sem táningur og er mjög þakklátur fyrir allt sem félagið hefur gert fyrir mig."
Hermoso spilaði tæplega 70 deildarleiki með B- og C- liðum Real Madrid á upphafi atvinnumannaferilsins. Hann lék svo 174 leiki á fimm árum hjá Atlético.
Hermoso og Ramos eru báðir fyrrum leikmenn Real Madrid, alveg eins og Toni Kroos sem hefur einnig verið orðaður við endurkomu til félagsins.
Kroos er þó ekki orðaður við endurkomu sem leikmaður eða sem þjálfari, heldur gæti hann verið tilvalinn sendiherra fyrir félagið.
Athugasemdir