Trent hafnar tilboðum Liverpool - West Ham stendur fast á verðmiðanum fyrir Kudus - Xabi Alonso hættir næsta sumar - Man Utd og Liverpool fylgjast með...
   fös 15. nóvember 2024 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pogba er farinn frá Juventus (Staðfest)
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Franski miðjumaðurinn Paul Pogba er búinn að staðfesta að hann hefur yfirgefið ítalska stórveldið Juventus eftir að hafa samið við félagið um starfslok.

Pogba er 31 árs gamall og hefur einungis leikið fyrir tvö félagslið á ferli sínum sem atvinnumaður í fótbolta, Manchester United og Juventus.

Hann var lykilmaður á dvöl sinni hjá Juventus en átti erfiðara með að ná stöðugleika í treyju Man Utd, þar sem slæm meiðslavandræði settu strik í reikninginn.

Pogba vann ítölsku deildina fjórum sinnum og ítalska bikarinn tvisvar með Juventus, auk þess að tapa úrslitaleiknum í Meistaradeild Evrópu 2015.

Með Man Utd sigraði Pogba Evrópudeildina og enska deildabikarinn 2017.

Hann var einnig mikilvægur hlekkur í ógnarsterku landsliði Frakklands sem vann HM 2018.

Pogba æfir einn síns liðs í Miami þessa dagana og er sagður vilja ganga til liðs við félagslið sem tekur þátt í HM félagsliða næsta sumar.

Það er liðið meira en ár síðan Pogba spilaði síðast keppnisleik í fótbolta en hann var dæmdur í leikbann síðasta haust eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. Fyrir það glímdi Pogba við tíð meiðsli og hefur honum ekki tekist að spila heila leiktíð án meiðsla síðan 2018-19. Þá leiktíð skoraði hann 13 mörk og gaf 9 stoðsendingar í 35 úrvalsdeildarleikjum með Rauðu djöflunum.

Pogba er í leikbanni þar til í mars 2025.
Athugasemdir
banner
banner