Trent hafnar tilboðum Liverpool - West Ham stendur fast á verðmiðanum fyrir Kudus - Xabi Alonso hættir næsta sumar - Man Utd og Liverpool fylgjast með...
   fös 15. nóvember 2024 22:02
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Skotland sigraði Króatíu - Ronaldo með tvennu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Það voru afar spennandi leikir á dagskrá í Þjóðadeildinni í kvöld, þar sem Skotland galopnaði baráttuna í riðli 1 með sigri gegn Króatíu.

Leikið var í Skotlandi og var staðan markalaus eftir nokkuð bragðdaufan fyrri hálfleik, þar sem gestirnir frá Króatíu höfðu þó verið sterkari aðilinn og fengið bestu færin.

Petar Sucic fékk að líta seinna gula spjaldið sitt undir lok fyrri hálfleiks og var því rekinn af velli. Luka Modric fyrirliði mótmælti þessum furðulega dómi og fékk gult spjald fyrir þrátt fyrir að bera bandið.

Tíu Króatar spiluðu fínan seinni hálfleik og ríkti jafnræði með liðunum í tíðindalitlum slag. Undir lokin tókst John McGinn þó að koma boltanum í netið til að stela 1-0 sigri fyrir heimamenn.

Þessi sigur opnar baráttuna um annað sætið í riðlinum þar sem Skotar eiga núna möguleika á að stela öðru sætinu af Króötum. Það er þó margt sem þarf að ganga upp til að það gerist, Skotland þarf að sigra útileik gegn Póllandi í lokaumferðinni og treysta um leið á að Króatía tapi heimaleik gegn Portúgal.

Takist Skotum ekki að sigra gegn Póllandi falla þeir niður í B-deildina.

Portúgal er öruggt með fyrsta sætið eftir stórsigur gegn Póllandi í dag, þar sem Cristiano Ronaldo bar fyrirliðabandið, skoraði tvennu og gaf eina stoðsendingu.

Staðan var markalaus í leikhlé eftir jafnan fyrri hálfleik en heimamenn skiptu um gír eftir leikhlé og skópu að lokum 5-1 sigur.

Rafael Leao, Bruno Fernandes og Pedro Neto komust allir á blað ásamt Ronaldo. Þá átti miðjumaðurinn öflugi Vitinha tvær stoðsendingar.

Pólland er úr leik eftir þetta tap og keppir úrslitaleik við Skotland í næstu umferð. Þar nægir Pólverjum jafntefli til að tryggja sér þriðja sæti riðilsins sem gefur umspilsleik um áframhaldandi þátttöku í A-deild.

Danmörk tapaði þá heimaleik gegn Evrópumeisturum Spánar. Gestirnir nýttu færin sín vel og var Ayoze Pérez atkvæðamestur með mark og stoðsendingu í 1-2 sigri.

Pérez lagði upp fyrir Mikel Oyarzabal í fyrri hálfleik og tvöfaldaði svo forystuna sjálfur eftir undirbúning frá Dani Olmo skömmu eftir leikhlé.

Danir áttu í vandræðum með að skapa sér færi og kom Gustav Isaksen inn af bekknum til að minnka muninn á 84. mínútu, en nær komust frændur okkar ekki.

Spánverjar eru búnir að tryggja sér toppsæti riðilsins en Danir eiga úrslitaleik við Serbíu framundan. Dönum nægir jafntefli þar, en ljóst er að Serbar komast í úrslitakeppnina með sigri á sínum heimavelli.

Serbía gerði jafntefli á útivelli gegn Sviss í kvöld, þar sem Aleksandar Mitrovic klúðraði vítaspyrnu á 55. mínútu, þegar staðan var enn markalaus.

Heimamenn í Sviss voru sterkari aðilinn yfir heildina og tóku forystuna á 78. mínútu með marki frá Zeki Amdouni, en tíu mínútum síðar var Aleksa Terzic búinn að jafna eftir undirbúning frá Dusan Vlahovic.

Portúgal 5 - 1 Pólland
1-0 Rafael Leao ('59 )
2-0 Cristiano Ronaldo ('72 , víti)
3-0 Bruno Fernandes ('80 )
4-0 Pedro Neto ('83 )
5-0 Cristiano Ronaldo ('87 )
5-1 Dominik Marczuk ('88 )

Skotland 1 - 0 Króatía
1-0 John McGinn ('86 )
Rautt spjald: Petar Sucic, Croatia ('44)

Danmörk 1 - 2 Spánn
0-1 Mikel Oyarzabal ('15 )
0-2 Ayoze Perez ('58 )
1-2 Gustav Isaksen ('84 )

Sviss 1 - 1 Serbía
0-0 Aleksandar Mitrovic ('55 , Misnotað víti)
1-0 Zeki Amdouni ('78 )
1-1 Aleksa Terzic ('88 )
Athugasemdir
banner
banner
banner