Það var nóg um að vera í undankeppni Afríkukeppninnar í dag þar sem Brahim Díaz skoraði tvennu í stórsigri hjá Marokkó.
Marokkó heimsótti Gabon og lenti undir snemma leiks, en Achraf Hakimi lagði upp jöfnunarmark áður en Díaz sneri stöðunni við með tvennu á stuttum kafla.
Youssef En-Nesyri bætti svo fjórða markinu við í síðari hálfleik og urðu lokatölur 1-5 fyrir Marokkó.
Pierre-Emerick Aubameyang leiddi sóknarlínu Gabon með fyrirliðabandið um handlegginn en tókst ekki að skora. Þá voru leikmenn á borð við Sofyan Amrabat og Noussair Mazraoui í sterku byrjunarliði Marokkó.
Bæði Marokkó og Gabon voru búin að tryggja sér þátttöku í lokamótinu fyrir þessa umferð.
Úrslit dagsins sem vekja mesta athygli er jafntefli hjá Angóla gegn Gana, sem þýðir að stjörnum prýtt landslið Gana er úr leik.
Gana fer því ekki með í Afríkukeppnina þar sem liðið er aðeins komið með þrjú stig eftir fimm umferðir í undankeppninni og er enn án sigurs.
Jordan Ayew skoraði eina mark liðsins í dag en úrvalsdeildarleikmennirnir Mohammed Kudus og Issahaku Fatawu byrjuðu í fremstu víglínu hjá Gana.
Heimamenn í liði Angóla voru talsvert sterkari aðilinn og óheppnir að sigra ekki slaginn í dag.
Angóla er búin að tryggja sér sæti í Afríkukeppninni og nú er ljóst að Gana mun ekki taka þátt eftir skelfilegt gengi í undankeppninni.
Egyptaland er einnig búið að tryggja sér sæti í lokakeppninni og gerði liðið jafntefli við Grænhöfðaeyjar í dag, en Mohamed Salah var ekki í hóp.
Sambía tryggði sér þá sæti í lokakeppninni með fræknum sigri gegn Fílabeinsströndinni þar sem lokatölur urðu 1-0. Fílabeinsströndin er með sterkt landslið þar sem Franck Kessié, Evan Ndicka, Seko Fofana og Simon Adingra voru meðal byrjunarliðsmanna í dag.
Fílabeinsströndin tekur einnig þátt í Afríkukeppninni þrátt fyrir tapið í dag.
Malí fer einnig í Afríkukeppnina eftir að hafa lagt Mósambík að velli í úrslitaleiknum um toppsætið. Yves Bissouma leikmaður Tottenham lagði eina mark leiksins upp fyrir Kamory Doumbia, sem leikur fyrir Brest í Frakklandi.
Reinildo Mandava, miðvörður Atlético Madrid, var í byrjunarliði Mósambík sem er á góðri leið með að koma sér í lokamótið. Mósambík á framundan úrslitaleik við Beto, framherja Everton, og félaga í landsliði Gíneu-Bissá um sæti í Afríkukeppninni.
Gínea-Bissá þarf að sigra með tveggja marka mun eða meira til að stela sætinu af Mósambík.
Það voru fleiri áhugaverð úrslit sem litu dagsins ljós þegar Kómoreyjar tryggðu sér sæti í lokakeppninni með sigri á útivelli gegn Gambíu. Yankuba Minteh, leikmaður Brighton, kom inn af bekknum í tapliði Gambíu.
Simbabve er einnig búið að tryggja sér þátttöku á lokamótinu eftir jafntefli við Keníu.
Gabon 1 - 5 Marokkó
1-0 Denis Bouanga ('4)
1-1 Jamal Harkass ('17)
1-2 Brahim Diaz ('20)
1-3 Brahim Diaz ('23)
1-4 Youssef En-Nesyri ('81)
1-5 Ismael Saibari ('90)
Angóla 1 - 1 Gana
0-1 Jordan Ayew ('18)
0-1 M'Bala Nzola ('27, misnotað víti)
1-1 Zini ('63)
Sambía 1 - 0 Fílabeinsströndin
1-0 Kennedy Musonda ('43)
Mósambík 0 - 1 Malí
0-1 Kamory Doumbia ('19)
Grænhöfðaeyjar 1 - 1 Egyptaland
Botsvana 1 - 1 Márítanía
Úganda 0 - 2 Suður-Afríka
Esvatíní 1 - 1 Gínea-Bissá
Simbabve 1 - 1 Kenía
Gambía 1 - 2 Kómoreyjar
Athugasemdir