Atletico íhugar að gera tilboð í Garnacho - Man Utd langt komið í viðræðum við Diallo - Dybala má fara ef hann er ósáttur
   mið 18. desember 2024 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar um Gísla: Ég tel nánast engar líkur á því
Gísli Gottskálk Þórðarson.
Gísli Gottskálk Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, telur það óraunhæft að Gísli Gottskálk Þórðarson verði áfram hjá félaginu á næstu leiktíð.

Gísli Gottskálk blómstraði í sumar og hefur leikið frábærlega í Sambandsdeildinni. Hann var valinn efnilegasti leikmaður Bestu deildarinnar af Fótbolta.net.

„Ég tel nánast engar líkur á því," sagði Arnar við Fótbolta.net í dag spurður að því hvort hann teldi einhverja möguleiki á að Gísli verði áfram hjá félaginu á næstu leiktíð.

„Ef ég á að segja alveg eins og er, þá er það bara óraunhæft. Næsta skref hans og fleiri leikmanna í okkar liði er ekki endilega að spila með okkur. Næsta skref í hans þróun er erlendis myndi ég segja."

Einnig er möguleiki á því að leikmenn eins og Ari Sigurpálsson og Danijel Dejan Djuric fari í atvinnumennsku. Þeir hafa staðið sig vel í Sambandsdeildinni.

„Það eru 3-4 sem gera klárlega tilkall til þess. Þessi Sambandsdeildargluggi hefur verið frábær fyrir þessa stráka til að sýna sig og sanna á stærra svæði. Ég á von á því að einhverjir verði seldir fljótlega, jafnvel í janúarglugganum," sagði Arnar.

Víkingar mæta LASK frá Austurríki í Sambandsdeildinni annað kvöld og þá ræðst það hvort liðið komist áfram í umspil.
Athugasemdir
banner
banner