Úrúgvæski miðjumaðurinn Manuel Ugarte er mjög ánægður með kröftuga innkomu Rúben Amorim til Manchester United.
Leikstíll Man Utd hefur breyst á skömmum tíma undir stjórn Amorim, sem er með mjög skýrar hugmyndir um hvernig fótbolta hann vill sjá sína menn spila.
Rauðu djöflarnir sigruðu gegn nágrönnum sínum í liði Manchester City um helgina og ríkir meiri jákvæðni heldur en áður í búningsklefanum.
„Það er mjög góð stemning í klefanum núna, við erum að taka þátt í nýju og gríðarlega spennandi verkefni með virkilega áhugaverðum þjálfara," segir Ugarte.
„Við erum partur af stóru félagsliði sem á heima á toppinum. Við erum ekki á réttum stað núna. Þetta er félag sem á að berjast um titla og spila í Meistaradeildinni. Markmiðið okkar er að komast aftur á þann stað sem við eigum að vera á. Við gerum það skref fyrir skref og tökum einn leik í einu.
„Það leikur enginn vafi á því að við höfum gæðin sem þarf til að berjast um titla. Við getum það. Við sönnuðum það á sunnudaginn (gegn Man City)."
Athugasemdir