Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 19. október 2022 15:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kjartan fær kaldar kveðjur í ummælakerfinu í Danmörku
Kjartan Henry Finnbogason.
Kjartan Henry Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á förum frá KR.
Á förum frá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur verið mikið rætt og skrifað um málefni Kjartans Henry Finnbogasonar og KR síðustu vikur.

Kjartan staðfesti í viðtali við 433.is í vikunni að hann hafi skrifað undir uppsögn á samningi sínum í síðustu viku, að beiðni KR.

Hann sagðist gáttaður á þeim ummælum Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR, sem sagði um helgina að Kjartan ætti ár eftir af samningi við félagið.

Kjartan er sár yfir þessum viðskilnaði við uppeldisfélag sitt. Hann er 36 ára en er alls ekki á þeim buxunum að hætta.

„Ég hef lifað fyrir KR og ég þekki ekkert annað og mér finnst þetta allt saman mjög leiðinlegt. Ég get ekki ímyndað mér annað en að öllum þyki það miður hvernig hlutirnir hafa æxlast. Þetta hefur að minnsta kosti verið mér og mínum nánustu mikil vonbrigði," sagði hann.

Mál hans hefur núna ratað í danska fjölmiðla og er skrifað um það á vefmiðlinum Bold. Kjartan er fyrrum leikmaður Horsens, Vejle og Esbjerg í Danmörku. Hann lék lengi í landinu og er vel þekkt stærð í danska boltanum.

Ummælakerfið er opið á grein Bold og eru þær nokkuð kaldar kveðjurnar sem Kjartan Henry fær þar. Virkir í athugasemdum hjá Bold tala um að hlutirnir hafa líka endað illa hjá þeim félögum sem hann spilaði með í Danmörku en það er ekki alveg rétt. Það gerðist þó hjá Vejle eins og lesa má um hérna.

„Ég held að örin beinist að Kjartani sjálfum. Stórt egó," skrifar einn notandinn og taka nokkrir í sama streng, en það er ekkert sem bendir til þess að Kjartan hafi verið með eitthvað vesen eða slíkt í sumar. Þess ber að geta að Kjartan er ekki vel liðinn hjá stuðningsmönnum Bröndby og er ansi líklegt að það hafi áhrif á skoðanir þessa fólks í ummælakerfinu.

Um mitt sumar var Kjartan skyndilega settur út í kuldann hjá KR og spilaði afskaplega lítið seinni hluta mótsins í ár. Greint hefur frá því að í samningi Kjartans hafi verið klásúla um að ef hann spilaði minna en 50 prósent af mínútum KR í sumar þá væri hægt að rifta samningnum. Ljóst varð að KR ætlaði að nýta sér þetta ákvæði.

„Ég er að springa mig langar svo að hjálpa og skora mörk. En því miður er það ekki ég sem ræð því," sagði Kjartan í samtali við Fótbolta.net fyrr í sumar.

Kjartan hefur ekki verið í stóru hlutverki með KR heilt yfir í sumar og er núna í leit að öðru félagi.

Sjá einnig:
Kjartan Henry botnar ekki í ummælum Rúnars - „Vitleysan náð nýjum hæðum“
Klásúlan sem varð til þess að KR setti Kjartan út í kuldann
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner