,,Þetta er meiri tölvuleikur''
Víkingur mætir á morgun velska liðinu TNS í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Um fyrri leik liðanna er að ræða og fer leikurinn fram á Víkingsvelli.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, ræddi við Fótbolta.net um andstæðinganna sem og ýmislegt annað í viðtali fyrir æfingu Víkings í dag.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, ræddi við Fótbolta.net um andstæðinganna sem og ýmislegt annað í viðtali fyrir æfingu Víkings í dag.
„Þetta er spennandi, þetta er allt önnur ella þessir Evrópuleikir og við erum að fara spila við andstæðinga sem eru með þekkingu úr Evrópuleikjum - náðu góðum árangri í fyrra," sagði Arnar.
TNS féll úr leik gegn Norður-Írska liðinu Linfield í forkeppni Meistaradeildarinnar fyrir viku síðan. TNS er velskur meistari sem komst í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra. Þar féll liðið úr lek eftir vítaspyrnukeppni gegn Viktoria Plzen. Velska deildin byrjar eftir þrjár vikur og er TNS því á undirbúningstímabili núna.
„Við erum að fara mæta allt öðruvísi liði, var að segja við strákana áðan að þetta væri svona 'nineties' breskt lið. Ég ólst upp við að horfa á þannig fótbolta og hafði mjög gaman af, það er allt öðruvísi fótbolti en er spilaður í dag en þeir geta líka spilað. Þeir eru í þeim 'business' að vinna leiki og kunna það mjög vel."
Arnar telur sigurlíkur Víkings mjög góðar. „Ég held að leikirnir á móti Malmö, Levadia og Inter hafi gefið okkur mikið sjálfstraust og þekkingu hvernig á að spila Evrópuleiki - hvernig á að nálgast það verkefni. Það eru miklu fleiri smáatriði sem þarf að hafa í huga og við erum orðnir nokkuð sjóaðir eftir þessa fjóra Evrópuleiki. Ég tel möguleika okkar vera mjög góða."
Vill ekki segja það sama eftir einvígið gegn TNS
Eins og fyrr segir féll Víkingur úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar í síðustu viku eftir einvígi gegn Malmö. Malmö vann einvígið 6-5 og sýndu Víkingar góða frammistöðu í leikjunum tveimur. Var erfitt að ná svekkelsinu úr kerfinu?
„Það tók smá tíma, það fóru margir klukkutímar í að hugsa 'ef og hefði' en fyrst og fremst tókum við bara mjög jákvætt úr þessu held ég allir, hvernig við tókum á þessu verkefni og hversu vel við stóðum okkur."
„Ég vil ekki segja hversu vel við stóðum okkur eftir þennan leik ef við komumst ekki áfram. Núna er engin gulrót eftir ef við föllum úr leik, erum bara úr leik ef við töpum þessu einvígi - engin fallhlíf lengur. Við verðum að ná góðum úrslitum á heimavelli til að eiga séns á að fara áfram."
„Ef það kveikir ekki aðeins í mönnum"
Dregið var í 3. umferðina á mánudag. Ef Víkingur fer áfram mun liðið mæta Lech Poznan frá Póllandi eða Dinamo Batuma frá Georgíu.
„Þetta er alltaf mjög spennandi og frábært að fá annað hvort Poznan eða sterkt lið frá Georgíu. Þetta eru mjög sterk lið og ef það kveikir ekki aðeins í mönnum; Poznan með 40 þúsund manna völl og tryllta stuðningsmenn ... ég er ekki að segja að þeir komist áfram en eru kannski líklegri. Það á bara að kveikja vel í mönnum til að halda þessu ævintýri áfram."
Einhverjir verða súrir og svekktir
Arnar segir að einhverjir munu verða fúlir þegar byrjunarliðið verður tilkynnt. „Það eru allir heilir, Halli (Halldór Smári Sigurðsson) verður á bekknum en er ekki alveg byrjaður að æfa aftur á fullu. En allir aðrir eru heilir, við fáum Kyle (McLagan) til baka og það er erfitt verkefni að velja byrjunarliðið. Það verða nokkrir sem verða súrir og svekktir."
Meiri tölvuleikur
Verður leikurinn á morgun öðruvísi uppettur hjá Víkingi heldur en leikur í Bestu deildinni?
„Já, þetta eru miklu meiri 'details' einhvern veginn, við þekkjum orðið það mikið þessa stráka sem eru að spila hérna heima og hvernig liðin spila. Þannig fundirnir fyrir þá leiki eru kannski meira til að skerpa á ýmsum atriðum. En í Evrópuleikjum þekkjum við ekki neitt og þetta fer bara í smáatriði varðandi allt; varðandi innköst, hornspyrnur, hvernig þessi hreyfir sig og hvað ef eitthvað ákveðið gerist."
„Þetta er meiri svona tölvuleikur. Við reynum bara að hlaða strákana eins miklum upplýsingum og hægt er og svo er það þeirra að 'delivera' þegar leikurinn byrjar," sagði Arnar.
Viðtalið er talsvert lengra og þar svarar Arnar spurningum um Kristal Mána Ingason, Viktor Örlyg Andrason, Breiðablik og Arnór Borg Guðjohnsen. Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni í spilaranum að ofan.
Athugasemdir