Arsenal og Man Utd berjast um Sane - Zubimendi til Arsenal? - Murillo orðaður við risa félög - Liverpool vill fá Pepi
   fim 22. júní 2023 15:14
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Eiginlega akkúrat sá tími sem allt fór í hund og kött á síðasta tímabili"
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Skoraði gegn Austurríki með U21.
Skoraði gegn Austurríki með U21.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Danni er bara Danni.
Danni er bara Danni.
Mynd: Fótbolti.net
Víkingar eru á toppnum með fimm stiga forskot á Val í 2. sætinu.
Víkingar eru á toppnum með fimm stiga forskot á Val í 2. sætinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Besta deildin fer af stað annað kvöld með þremur leikjum og 12. umferðin klárast á laugardag með þremur leikjum. Víkingur er á toppi deildarinnar og á liðið leik gegn Stjörnunni á laugardagskvöldið.

Púlsinn var tekinn á Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara toppliðs Víkings, í dag og hann spurður út í stöðuna á hópnum og landsleikjahléið.

Gott fyrir Ara og Danni er bara Danni
„Þessi landsleikjapása hefur tekist mjög vel. Gunnar Vatnhamar spilaði báða leikina fyrir Færeyjar; 90 mínútur í fyrri leiknum og rúmar 80 í leik tvö. Hann slapp frá því og svo stóðu okkar strákar sig virkilega vel með U21 landsliðinu. Ari Sigurpálsson fékk kærkomnar mínútur, skoraði á móti Austurríki og Danni gerði sigurmarkið gegn Ungverjum. Þetta var bara virkilega vel heppnað," sagði Arnar.

Ari skoraði sitt fyrsta mark fyrir yngri landsliðin og Danijel Dejan Djuric skoraði eina markið gegn Ungverjum seint í leiknum.

„Gott fyrir Ara að fá tvo leiki, örugglega meiri hlaup í fyrri leiknum þegar hann var í kantbakverði og öðruvísi varnarvinna en hann er vanur en var í sinni stöðu á kantinum í seinni hálfleik. Virkaði eins og hann væri að nálgast sitt gamla góða form. Danni er náttúrulega bara Danni, er búinn að vera heitur fyrir okkur undanfarið og tók það sjálfstraust með sér inn í landsliðsverkefnið og stóð sig mjög vel."

Eru allir aðrir heilir eftir hléið og búnir að ná að hvíla sig vel?

„Við tókum góða pásu strax eftir leikinn gegn Fram og byrjuðum svo hægt og rólega að stíga upp tempóið og erum búnir að eiga mjög góða æfingaviku núna. Allir eru heilir, enginn meiðsli á hópnum og allir klárir í bátana á laugardaginn."

Mögulega besta mál að leiktíminn sé óbreyttur
Talandi um leikinn á laugardaginn, það var fjallað um það í Þungavigtinni að Víkingur hefði viljað færa leikinn gegn Stjörnunni fram á föstudag.

„Við vildum gera það, það er mikið um útskriftir og giftingar og læti. Það var pæling að færa hann á föstudag en leikurinn verður bara á laugardaginn, ekkert að því. Það er búin að vera fín stemning í Víkinni og við vildum gefa sem flestum tækifæri til að horfa á þessa leiki. Mögulega gæti þetta hentað okkur vel líka. Menn voru að ferðast út um hvippinn og hvappinn, Gunnar kannski sérstaklega; spilaði á þriðjudeginum. Mögulega er þetta hið besta mál að leiktíminn sé óbreyttur."

Engin eftirköst hjá Gísla
Gísli Gottskálk Þórðarson meiddist illa í síðasta mánuði. Er hann orðinn 100%?

„Já, hann spilaði með 2. flokki í gær og er búinn að æfa með okkur og U19 liðinu. Þetta lítur mjög vel út og engin eftirköst eða neitt. Síðasta hindrun hjá strákum sem lenda í svona meiðslum er bara að þora að fara í fyrstu tæklinguna eða svona; treysta ökklanum. Ég tel hann vera búinn að gera það."

Lúxusstaða akkúrat núna
Það hlýtur að vera draumastaða að vera meiðslafrían hóp þegar komið er á þennan tímapunkt á tímabilinu?*

„Já, þetta er mikill munur frá því í fyrra að minnsta kosti. En þetta er eiginlega akkúrat sá tími sem allt fór í hund og kött á síðasta tímabili," sagði Arnar og hló. „Við skulum ekki byrja að fagna of snemma. Þetta er þannig leikur að maður er hálfpartinn farinn að sætta sig við að það séu alltaf 2-3 frá. En akkúrat núna er þetta lúxusstaða," sagði Arnar.

Viðtalið verður birt í þremur hlutum, annar hluti verður birtur seinna í dag.

*Kyle McLagan sleit krossband fyrir mót og verður frá út tímabilið.

12. umferð Bestu karla:
föstudagur 23. júní
19:15 HK-Breiðablik (Kórinn)
19:15 FH-Fram (Kaplakrikavöllur)
19:15 Keflavík-Fylkir (HS Orku völlurinn)

laugardagur 24. júní
14:00 ÍBV-Valur (Hásteinsvöllur)
17:00 KR-KA (Meistaravellir)
19:15 Víkingur R.-Stjarnan (Víkingsvöllur)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner