Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari Íslands brotnaði á hendi í leik liðsins við Slóvakíu í undankeppni EM í kvöld en þetta staðfesti hann í viðtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
Ísland vann 1 - 3 sigur í leiknum eftir að hafa verið 1 - 0 undir í hálfleik eftir dapra frammistöðu í þeim fyrri. Í byrjun síðari hálfleiks stöðvaðist leikur vegna rafmagnsleysis en þá brotnaði Jón Þór. Hann útskýrir hvernig það kom upp í viðtalinu hér að neðan.
Ísland vann 1 - 3 sigur í leiknum eftir að hafa verið 1 - 0 undir í hálfleik eftir dapra frammistöðu í þeim fyrri. Í byrjun síðari hálfleiks stöðvaðist leikur vegna rafmagnsleysis en þá brotnaði Jón Þór. Hann útskýrir hvernig það kom upp í viðtalinu hér að neðan.
Hvað klikkaði í fyrri hálfleiknum?
Það var andleysi og taktleysi í liðinu, við náðu okkur aldrei á strik í fyrri hálfleik og Slóvakarnir gengu á lagið. Þær eru þéttar og erfiðar við að eiga en við gerðum þeim auðvelt fyrir í fyrri hálfleik með ákveðnu andleysi.
Komu þær ykkur á óvart?
Nei í sjálfu sér ekki, við getum ekki útskýrt það, mér fannst við vera ólíkar sjálfum okkur og andinn og stemmningin í liðinu var lítil. Við gáfum þeim of mikið pláss og náðum ekki þeim takti í sóknarleikinn sem við ætluðum okkur að gera. Það var ólíkgt okkur, við komumst í ágætis stöður í upphaf leiks og vorum eftir á í þeim stöðum sem við vorum búin að tala um að taka fyrir leikinn að koma okkur í. Þegar við komumst í þær vorum við eftir á í stöðurnar og náðum ekki að nýta okkur það. Slóvakar gengu því á lagið og skoruðu með langskoti í fyrri hálfleik. Þær höfðu yfir í allri baráttu á vellinum sem gerði okkur erfitt fyrir í fyrri hálfleik.
Þið farið inn í klefa í hálfleik og léstu þá í þér heyra?
Þetta snerist um að núllstilla mannskapinn og byrja upp á nýtt. Finna taktinn okkar og fara að koma okkur í þær stöður sem við töluðum um fyrir leikinn. Við gerðum það frábærlega í seinni hálfleik og unnum frábæran karakter sigur, að koma til baka og á svona sannfærandi hátt. Það var virkilega vel gert. Ég hrósa liðinu fyrir mikinn karakter í seinni hálfleik og mjög góða spilamennsku. Það má ekki gleyma því heldur að við náum upp frábærum sóknum og skorum frábær mörk í þessum leik.
Það varð rafmagnslaust á vellinum í byrjun seinni hálfleiks, fannst þér það taka taktinn úr liðinu?
Nei, í sjálfu sér ekki. Mér fannst við byrja seinni hálfleikinn mjög sterkt, svo kemur rafmagnsleysið upp og mér fannst við ekki missa taktinn nei. Auðvitað tók tíma að brjóta þær en það var mikil trú og allt önnur stemmning í liðinu sem ég var mjög ánægður með.
Liðið spilaði 4-4-2 fannst þér það virka fínt?
Það er sama hvernig þú stillir upp fyrri hálfleiknum, það virkaði ekki neitt. Það hefði verið alveg sama hvernig við hefðum stillt upp liðinu þegar þú mætir svona til leiks, þá erum við í veseni. Slóvakar eru betri en það. Mér fannst það virka mjög vel í seinni hálfleik og við náðum mjög góðum takti í sóknarleikinn okkar og fáum frábæra frammistöðu.
Fyrsta og eina skiptingin í leiknum er á 90. mínútu. Afhverju skiptirðu ekki oftar og fyrr?
Mér fannst frammistaðan þannig og við vildum ekki riðla leik liðsins. Auðvitað voru leikmenn sem voru þreyttir en þær voru að skila góðri vinnu svo okkur fannst ekki ástæða til að gera skiptingu fyrr. Við vildum ekki riðla þessum takti sem var kominn í liðið.
Eru þá allir leikmenn ferskir eftir þennan leik?
Já nú förum við í að hefja undirbúning fyrir leikinn við Ungverjaland á þriðjudaginn. Við fáum fjóra til fimm daga til að jafna okkur núna svo það er ekki nokkur spurning að allar verða ferskar þá.
Ungverjar eru öðruvísi mótherji, má gera ráð fyrir breytingum á liðinu?
Þetta er lið sem er hærra skrifað í fótboltanum og eru í 3. styrkleikaflokki meðan Slóvakar eru í fjórða. Það munar sárafáum sætum á þeim og eru mjög áþekk lið að getu. Leikskipulagið er öðruvísi hjá Ungverjum og við förum á fullan kraft í undirbúning fyrir þann leik.
Segðu mér svo að lokum, handleggsbraustu þig í leiknum?
Ég var að fá niðurstöðu úr myndatöku og er brotinn já.
Hvað gerðirðu?
Eftir stoppið í rafmagnsleysinu vorum við að stappa stálinu í hvert annað og ég lem í nuddbekk með krepptum hnefa. Ég hitti þar utan á hnefann og braut beinið sem er efst uppi í litla puttanum. Það er smávægilegt og ég verð klár á þriðjudaginn.
Ertu uppi á sjúkrahúsi núna?
Jájá, í þessum töluðu orðum.
Færðu gips:
Já ég fæ gips
Er þetta ekki pirrandi?
Jú, mjög svo en maður verður að taka þeim meiðslum sem koma upp í þessu og jafna sig milli leikja. Ég verð að jafna mig eins og leikmenn og verð klár.
Varstu reiður þegar þetta gerðist?
Nei, þetta var ekki í reiðiskasti heldur var þetta eldmóður. Við vorum að byrja seinni hálfleikinn vel og ég var meira að leggja áherslu á að við héldum þeim krafti og orku sem við settum í byrjunina á seinni hálfleik og héldum því áfram.
Var þetta ekki það sem þurfti til að vinna?
Ég sagði við stelpurnar eftir leikinn að ég ætlaði ekki að fara að brjóta bein í hvert skipti sem þyrfti að koma til baka en ef það var þetta sem þurfti þá var ég hæstánægður með það og fórna mér glaður í það. Nei nei, þetta er bara óheppilegt og kemur ekki fyrir aftur.
Athugasemdir