Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mán 01. apríl 2019 14:30
Arnar Daði Arnarsson
Castillion æfir ekki með FH - Óljóst hvar hann verður í sumar
Castillion í leik með FH í júlí í fyrra.
Castillion í leik með FH í júlí í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Kristjáns þjálfari FH.
Óli Kristjáns þjálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Geoffrey Castillion sem er samningsbundinn FH hefur ekki æft með liðinu undanfarnar vikur. Þetta staðfesti Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari FH í samtali við Fótbolta.net.

Castillion var fenginn til FH frá Víkingum fyrir síðasta tímabil en hann náði sér aldrei á strik í FH-treyjunni og var lánaður aftur til Víkings seinni hluta síðasta sumars.

Þar skoraði sóknarmaðurinn sex mörk í átta leikjum.

Óli Kristjáns þjálfari FH segir það vera óljóst hvort og hvar Castillion spili í sumar.

„Hann er samningsbundinn FH en hann er ekki að æfa með okkur. Það er óljóst hvort hann verði með okkur í sumar. Það er ákveðin biðstaða á því og við erum að reyna finna lausn á því máli með honum," sagði Óli en einhver íslensk lið hafa spurst fyrir um sóknarmanninn sem skoraði 11 mörk í 16 leikjum með Víkingum tímabilið 2017.

„Það hafa verið þreifingar en það þurfa allir að vilja það. Hann þarf að vilja vera hjá því félagi og félögin þurfa að vilja hann og geta tekið hann. Hann hefur verið í smá geymslu hjá okkur."

Þetta er vægast sagt furðulegt mál í alla staði.

„Stundum er þetta svona í fótboltanum. Það er ekki oft sem maður sér þetta á Íslandi en svona er þetta stundum."

Ólafur segir að Castillion vilji spila. Hann segir að það geti vel verið að hann spili með FH í sumar en Fimleikafélagið setur engar kvaðir að þeirra hálfu hvert hann fari.

„Það eru engar slíkar pælingar í gangi að hann megi ekki fara eitthvað. Hann þarf að vilja fara eitthvað annað og það þurfa aðrir að vilja hann og við erum að reyna finna lausn á því."

Gætu bætt við sig nýjum manni
Óli segir að þeir séu með opnar dyr fyrir nýjum leikmönnum ef upp kemur sú staða að þeir finni leikmann sem þeir telji að styrki liðið.

„Ef réttur maður finnst þá erum við opnir fyrir því að taka hann en það er ekki svo að við séum að leita. Við erum í engu stresskasti yfir því að taka einhvern nýjan leikmann. Þetta er eins og allt annað, við tökum ekki bara eitthvað inn. Ef það kemur eitthvað spennandi þá skoðum við það," sagði þjálfari FH að lokum.


Athugasemdir
banner
banner