Heimir Guðjónsson, fyrrum þjálfari Vals og FH, var gestur í hlaðvarpsþættinum Chess After Dark á dögunum þar sem hann fór ítarlega yfir tíma sinn hjá Val og margt fleira.
Heimir er án þjálfarastarfs þessa stundina eftir að hafa verið rekinn frá Val í sumar.
Hann segist hafa skilið þá ákvörðun Vals að reka sig en hann hefði viljað fá meiri tíma til að breyta stöðunni.
Ólafur Jóhannesson tók við Val af Heimi, en hann segir að þeir tveir séu góðir vinir. Núna er búið að segja Óla upp og mun Arnar Grétarsson taka við af honum eftir tímabilið. Ólafur mun samt sem áður klára tímabilið með Val.
„Ég held að þetta sé fín ráðning," sagði Heimir en hann spyr sig af hverju Arnar tekur ekki bara við liðinu núna.
„Addi Grétars er rekinn frá KA og það vita allir að hann sé að fara að taka við Val. Það er búið að segja Óla upp, Helga upp og Halla Hróðmars upp. Ég skil ekki af hverju Addi Grétars tekur ekki bara við liðinu og stýrir því í þessa fimm leiki sem eru eftir. Það hefði verið hreinlegast."
„Það kom tveggja vikna landsleikjahlé og þá hefði verið hreinlegast ef Addi hefði tekið þetta."
Óli Jó mun stýra Val í síðustu leikjum tímabilsins þrátt fyrir að hafa fengið þau tíðindi að hann verði ekki áfram, en hann er með samning út tímabilið. Valur hefur að engu að keppa en liðið á ekki möguleika á Evrópusæti.
Heimir var spurður að því hvort hann skildi ákvörðun KA að láta Arnar fara en hægt er að lesa meira um hana hérna.
„Já. Viðtölin við Adda Grétars voru þannig... þú varst með Rikka G, umboðsmann hans, hann í drottningarviðtölum hvað eftir annað um að fara suður. Ég skil KA mjög vel," sagði Heimir
Hann segist stoltur af sínum tíma í Val þar sem hann varð Íslandsmeistari einu sinni. Það verður áhugavert að sjá hvað hann gerir næst.
Sjá einnig:
Búið að láta Óla Jó og Helga vita að þeir verði ekki áfram
Rætt um hvort Arnar gæti tekið strax við Val - „Hvað hefur Óli Jó við þessa fimm leiki að gera?"
Athugasemdir