Trent hafnar tilboðum Liverpool - West Ham stendur fast á verðmiðanum fyrir Kudus - Xabi Alonso hættir næsta sumar - Man Utd og Liverpool fylgjast með...
   fös 15. nóvember 2024 11:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sammi: Stundum eru menn ekki sammála um hvað þeir eiga að fá greitt
Biðlar til stuðningsmanna að sýna stillingu
Balde er miðjumaður sem kom við sögu í 23 leikjum í sumar.
Balde er miðjumaður sem kom við sögu í 23 leikjum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Samúelsson.
Samúel Samúelsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
' Það er ekkert mál að lofa öllu fögru og gera samninga sem leikmenn sætta sig við, en það er betra að geta staðið við þær skuldbindingar sem við gerum'
' Það er ekkert mál að lofa öllu fögru og gera samninga sem leikmenn sætta sig við, en það er betra að geta staðið við þær skuldbindingar sem við gerum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ibrahima Balde verður ekki með Vestra á komandi leiktíð, hann staðfesti það í viðtali við mbl.is sem birt var í morgun.

Balde segist hafa viljað vera áfram en hann segir að samningstilboð Vestra hafi verið langt frá því að vera viðunandi. Hann er áttundi leikmaðurinn sem yfirgefur Vestra frá því að tímabilinu lauk.

„Já, auðvitað langaði mig að vera áfram. Hins­veg­ar lang­ar mig að vera hjá fé­lagi sem met­ur mig að verðleik­um. Ég hlustaði á það sem fé­lagið vildi bjóða mér en það var það langt frá því sem ég vildi. Tím­inn og vinn­an sem ég hef lagt í þetta verk­efni síðustu tvö ár verðskulda meira. Ég kom með gagn­til­boð sem þeir tóku ekki þannig að þetta endaði svona," sagði Balde við mbl.is.

Fótbolti.net ræddi við formann Vestra, Samúel Samúelsson, og var hann spurður út í Balde.

„Ibra er góður drengur, stóð sig með prýði í búningi Vesta og við óskum honum alls hins besta í komandi framtíð. Stundum þróast hlutirnir bara þannig að menn eru ekki sammála um það hvernig hlutirnir eiga að vera og hvað menn eigi að fá greitt. En það eins og gengur og gerist í fótboltanum," segir Sammi.

„Betra að geta staðið við þær skuldbindingar sem við gerum"
„Vestri er félag allra Vestfirðinga, vel rekið félag, það er nóvember og við vitum ekki 100% á þessum tíma úr hversu miklu við höfum að spila fyrir komandi tímabil. Það er enginn starfsmaður hjá Vestra og félagið hefur eingöngu verið keyrt áfram af sjálfboðaliðum. Ég held að ég geti fullyrt að Vestri sé eina félagið í tveimur efstu deildunum sem er ekki með framkvæmdastjóra í vinnu. Því er ábyrgðin á sjálfboðaliðum sem starfa í kringum félagið hverju sinni. Það getur tekið tíma að hringja í þau góðu fyrirtæki og þá góðu einstaklinga sem styðja við félagið. Við hjá Vestra reynum að sníða okkur stakk eftir vexti og viljum ekki eyða peningum sem við eigum ekki til eða erum ekki með vilyrði fyrir. Það er ekkert mál að lofa öllu fögru og gera samninga sem leikmenn sætta sig við, en það er betra að geta staðið við þær skuldbindingar sem við gerum."

„Ég held að áhugi þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem styrkja okkur og styðja við okkur yrði fljótur að dvína ef þeirra styrkir færu í að greiða niður skuldir þar sem félagið væri illa rekið."


Sammi hefur orðið var við kurr í stuðningsmannahópi félagsins, vangaveltur um hvers vegna leikmenn séu að fara frá félaginu.

„Þeir leikmenn sem semja við Vestra hafa getað reitt sig á að þeir samningar sem þeir gera muni standast og að þeir fái launin sín fyrsta hvers mánaðar. Það er ekkert sem gefur til kynna á þessum tímapunkti að við getum hækkað laun. Ferðakostnaður er ekki að lækka, leiguverð á húsnæði er ekki að lækka og matur og önnur þjónusta sem við greiðum fyrir er ekki að lækka."

„Ég vil biðja stuðningsmenn félagsins að sýna stillingu. Vestri mun fylla í skörð þeirra leikmanna sem hafa yfirgefið okkur og Vestri mun mæta með öflugt lið til leiks í apríl. Þó svo að ég þoli ekki þetta máltæki, þá gerast góðir hlutir hægt,"
segir Sammi að endingu.

Leikmennirnir átta sem um ræðir eru þeir Andri Rúnar Bjarnason, Eiður Aron Sigurbjörnsson, William Eskelinen, Aurelien Norest, Inaki Rodriguez, Jeppe Gertsen, Benjamin Schubert og Ibrahima Balde. Vestri endaði í 10. sæti í Bestu deildinni á sínu fyrsta tímabili í efstu deild.
Athugasemdir
banner
banner