Leikur Svartfjallalands og Íslands á morgun verður þriðja viðureign þjóðanna í A-landsliðum karla.
Ísland vann Svartfjallaland 2-0 á Laugardalsvelli í september. Orri Steinn Óskarsson og Jón Dagur Þorsteinsson skoruðu mörk Íslands.
Ísland vann Svartfjallaland 2-0 á Laugardalsvelli í september. Orri Steinn Óskarsson og Jón Dagur Þorsteinsson skoruðu mörk Íslands.
Eina viðureign þessara þjóða fram að þeim leik var spilaður hér í Podgorica árið 2012. Um var að ræða vináttulandsleik sem Svartfellingar unnu 2-1 á heimavelli.
Það var annar leikur liðsins undir stjórn Lars Lagerback og Heimis Hallgrímssonar og má því segja að sá leikur hafi verið hluti af upphafi velgengninnar. Staðan var markalaus í hálfleik.
„Stórstjarnan Stevan Jovetic, leikmaður Fiorentina, var hættulegur í sókninni líkt sem og Mirko Vucinic sem kom inn á í hálfleik. Það var einmitt Jovetic sem kom heimamönnum yfir með skalla af markteig eftir sendingu frá vinstri kanti. Bjarni Ólafur Eiríksson gleymdi sér illilega í dekkingunni og skildi Jovetic eftir einan á fjærstöng sem skallaði framhjá Stefáni Loga í markinu," skrifaði Smári Jökull Jónsson sem fjallaði um leikinn fyrir Fótbolta.net.
Alfreð Finnbogason jafnaði í 1-1. „Hann fékk sendingu innfyrir vörnina, lék á einn varnarmann og setti boltann í fjærhornið. Vel gert hjá Alfreð sem einungis hafði verið inni á vellinum í tæpar fimm mínútur."
„Einungis tveimur mínútum seinna hefðu svo Íslendingar átt að komast yfir þegar þeir fengu algjört dauðafæri. Gylfi Þór komst þá inn í sendingu til markvarðar Svartfellinga, ákvað að senda á Alfreð sem skaut í þverslá af stuttu færi. Boltinn barst til Jóhanns Berg sem skaut yfir úr góðu færi. Enda kom það í ljós að íslenska liðinu var refsað fyrir að nýta ekki þessi færi sín. Stevan Jovetic sýndi snilli sína þegar hann skoraði með góðu skoti af rúmlega 20 metra færi. Varnarmenn Íslands voru alltaf seinir að fara út og mæta Jovetic sem fékk nægan tíma til að stilla sér upp og skora."
Jovetic fagnaði á dögunum 35 ára afmæli sínu en hann leikur í dag fyrir Omonia á Kýpur. Hann hefur leikið með liðum á borð við Man City, Inter og Sevilla á ferlinum og á 36 mörk í 82 landsleikjum fyrir Svartfjallaland að baki.
Hann er í svartfellska hópnum og spilaði einnig gegn Íslandi í september. Hann verður hinsvegar ekki með gegn Íslandi á morgun vegna leikbanns. Hann fékk gult í fyrri leiknum gegn Íslandi og svo gegn Wales í síðasta glugga.
Athugasemdir