Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   þri 18. maí 2021 09:15
Fótbolti.net
Bestur í 4. umferð - Eins og hann hafi verið gotinn í Krikanum
Ágúst Hlynsson (FH)
Ágúst Eðvald Hlynsson, leikmaður FH.
Ágúst Eðvald Hlynsson, leikmaður FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst Eðvald Hlynsson er leikmaður 4. umferðar Pepsi Max-deildarinnar en hann fór á kostum í Kórnum þar sem FH vann 3-1 endurkomusigur.

„Kláraði leikinn fyrir FH. Kom að öllum mörkum FH, skoraði tvö og lagði upp eitt. Var þess utan virkilega öflugur og áttu HK í töluverðu basli með hann," skrifaði Stefán Marteinn Ólafsson, fréttamaður Fótbolta.net á leiknum.

Sjá einnig:
Úrvalslið 4. umferðar Pepsi Max-deildarinnar

Eftir að hafa skorað tvö mörk þá lagði hinn 21 árs gamli Ágúst upp sigurmarkið eftir hreint magnaðan sprett upp allan völlinn. Í Innkastinu hér á Fótbolta.net líkti Gunnar Sigurðarson honum við teiknimyndapersónuna Roadrunner, hlaupagaukinn sígilda.



„Þetta var á 86. mínútu og hann var á svona 70 kílómetra hraða. Hann er eins og strútur og brunar upp kantinn. Hann fær mann í sig, hann stoppar bara og svo 'beep beep', tekur hann 'Roadrunnerinn' og stingur hann af. Þessi drengur er ekki mennskur," segir Gunnar.

„Drengurinn er kominn í strax inn í hópinn og það er eins og hann hafi verið gotinn í Kaplakrikanum. Holningin er þannig, búningurinn fer honum vel, liðsfélagarnir fara honum vel og allir klappa honum eins og hann sé uppalinn."

Elvar Geir Magnússon talar um hversu mikil breyting hefur orðið á liði FH með innkomu hans. Þessi fyrrum leikmaður Víkings kom á láni frá Horsens í Danmörku rétt fyrir mót.

„FH-ingar eru komnir með tíu stig en voru í tómu brasi á undirbúningstímabilinu. Svo kemur bara Ágúst Eðvald Hlynsson sem sprengja inn í þetta lið og hann er búinn að vera ótrúlega góður. Allt hrós á hann," segir Elvar og Gunnar Birgisson bætir við:

„Hann virðist hafa tekið miklum framförum í síðustu Danmerkurdvöl og er rosalega ógnandi. Hann er orðinn fullmótaðri leikmaður. Spyrnurnar eru orðnar betri og holningin líka. Eins og staðan er núna er lánsdvölin hans til 1. júlí, eftir það eru tólf leikir eftir. Ef FH nær ekki að framlengja þá dvöl eða fá mann í staðinn, hvað ætla þeir þá að gera?"

Í viðtali eftir leikinn í gær sagðist Ágúst einmitt vera að taka framförum sem fótboltamaður. Ef staðan kæmi upp að honum yrði boðið að klára tímabilið með FH segist Ágúst alveg hafa áhuga á því.

„Já ég held það, eins og staðan er núna er ég að njóta mín í botn hérna hjá FH og vonandi get ég klárað tímabilið með þeim," segir Ágúst Eðvald Hlynsson, leikmaður umferðarinnar.

Leikmenn umferðarinnar:
3. umferð: Thomas Mikkelsen (Breiðablik)
2. umferð: Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
1. umferð: Sölvi Geir Ottesen (Víkingur)

Fjallað er um 4, umferðina í Innkastinu sem má nálgast í spilaranum hér að neðan.
Ágúst Eðvald: Er að njóta mín í botn hérna hjá FH
Innkastið - Stóru málin í Pepsi Max með Gunna samloku
Athugasemdir
banner
banner
banner