Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mán 23. október 2023 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Haukur ósammála Arnari: Ennþá nægilega góður til að vera í hvaða liði sem er
Haukur hefur verið hjá Val í fjórtán tímabil.
Haukur hefur verið hjá Val í fjórtán tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hann byrjaði einungis þrjá leiki í sumar.
Hann byrjaði einungis þrjá leiki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Munu Arnar og Haukur vinna áfram saman?
Munu Arnar og Haukur vinna áfram saman?
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, varð samningslaus fyrir viku síðan. Hann hefur verið hjá Val síðan 2010 þegar hann kom frá norska félaginu Alta en þar áður var hann hjá uppeldisfélagi sínu Þrótti.

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, sagði við Fótbolta.net í síðustu viku að hann byggist frekar því að Haukur færi í annað félag en að hann yrði áfram.

Hefur ekkert heyrt frá Val
Fótbolti.net ræddi við Hauk í dag. „Ég er bara samningslaus, er í fríi núna, einhverjir hafa haft samband, en ég er voða lítið farinn að pæla í þessu," sagði leikmaðurinn.

Kemur til greina að vera áfram hjá Val? „Já, það gerir það alveg af minni hálfu. Það er undir klúbbnum komið, hvort ég fái boð um áframhaldandi samning eða ekki. Ég hef ekkert heyrt frá þeim. Ég átti samtal við Arnar og sá fundur endaði þannig að hann ætlaði að heyra í stjórninni og sjá hvað þeir ætluðu að gera. Ég hef ekkert heyrt meira."

Félög haft samband
Haukur segir að félög bæði úr Bestu og Lengjudeildinni hefðu sett sig í samband. „Engar viðræður farnar í gang, ég sagði þeim að ég væri að fara í frí, en sagði þeim að ég væri spenntur fyrir því að halda áfram í fótbolta. Planið var alltaf að fara í þetta frí, slaka á með fjölskyldu og vinum og pæla svo í þessum hlutum þegar ég kæmi heim. Það er mikill áhugi frá mér að halda áfram í fótbolta."

Þjálfun alveg möguleiki - Markmiðið að spila fótbolta
Í hlaðvörpum hefur komið upp sú vangavelta hvort að Haukur væri farinn að huga að þjálfun; verða spilandi aðstoðarþjálfari. Hefur slík hugsun komið upp?

„Já og nei. Ég hef ekkert farið í djúpar hugsanir, hef ennþá mikinn áhuga á því að spila og þyrfti að kynna mér það hjá öðrum sem hafa farið í þetta hlutverk. Ég hef brennandi áhuga á fótbolta og sæi alveg fyrir mér að ég myndi verða þjálfari í framtíðinni. Hvort það yrði núna þyrfti að koma í ljós. Mig langar bara að spila fótbolta, hef ennþá ótrúlega gaman af því og hef alltaf sagt við sjálfan mig að um leið og ég hætti að hafa gaman af fótbolta þá hætti ég þessu. Að halda áfram að spila fótbolta er eina markmiðið mitt."

Var pirraður á takmörkuðum spiltíma
Haukur er 36 ára miðjumaður sem byrjaði þrjá leiki í deildinni í sumar og komið inn á í tíu leikjum.
Ertu svekktur með hversu fáar mínútur þú fékkst í sumar?

„Já, klárlega. Mér fannst koma augnablik þar sem mér fannst ég eiga skilið að byrja fleiri leiki. Ég er allavega þannig gerður að ég er ekki að væla í þjálfurum. Þeir velja bara sín lið og ef ég er ekki liðinu þá þarf ég bara að gera meira. Á tímum var maður auðvitað pirraður. Á fundum sem ég átti með Arnari lét ég hann alveg vita af því. Ég hélt samt alltaf áfram og studdi þá sem voru að spila, þetta er hópíþrótt. Í sumar studdi ég alltaf þá sem voru að spila og reyndi að gera mitt til að liðið myndi ná árangri. Mér fannst ég gera það mjög vel."

Ósammála Arnari
Haukur var að lokum spurður út í ummæli Arnars í viðtali við Fótbolta.net í síðustu viku. Arnar sagði eftirfarandi: „Hann hefur ennþá helling til að gefa og getur ennþá verið inn á vellinum fyrir einhverja sem eru kannski ekki með sömu markmið og Valur."

„Þetta eru bara hans orð. Ég tel mig ennþá vera nægilega góðan til að vera í hvaða liði sem er á Íslandi - og þá inni á vellinum. Ég pæli ekkert í svona, skiptir mig ekki máli. Þetta er bara eins og honum líður og ég er ósammála þessu. Ég tel mig ennþá nægilega góðan til að vera inni á vellinum í hvaða liði sem er."

„Ef Valur vill halda mér, þá myndi ég klárlega skoða það,"
sagði Haukur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner