Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   mið 23. desember 2020 16:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tryggvi Hrafn: Verst geymda leyndarmál Íslands í sumar
Hér fagnar Tryggvi marki gegn Val síðasta sumar.
Hér fagnar Tryggvi marki gegn Val síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Næsti kafli á ferlinum hefst núna.
Næsti kafli á ferlinum hefst núna.
Mynd: Valur
Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson gekk í dag í raðir Íslandsmeistara Vals frá ÍA.

Hinn 24 ára gamli Tryggvi skoraði 12 mörk í 17 leikjum í Pepsi Max-deildinni síðasta sumar en eftir tímabilið fór hann til Lilleström í Noregi þar sem honum gekk mjög vel. Hann valdi á milli Vals og Lilleström, og ákvað að semja á Hlíðarenda.

„Það var verst geymda leyndarmál Íslands í sumar að ég væri á leið í Val eftir tímabilið," segir Tryggvi Hrafn.

„Þeir eru búnir að vera í sambandi við mig síðan í sumar og á meðan ég var úti. Aðdragandinn var þannig séð langur en ákvörðunin var tekin fyrir stuttu. Þetta var fljótt að gerast eftir það."

Tryggvi náði samkomulagi við Val síðasta sumar þar sem samningur hans við ÍA var að renna út, en hann gat valið að fara til Lilleström eftir að það kom upp.

„Ég náði samkomulagi við Val í sumar og það var ekkert annað í boði á Íslandi en að fara í Val. Ég hefði getað verið áfram úti, það var klásúla um að ég mætti fara erlendis," sagði Tryggvi sem útilokar það ekki að spila erlendis í framtíðinni.

„Þeir (Lilleström) buðu mér samning og valið var á milli þessara tveggja félaga. Mér leist betur á það að koma til Íslands og að fara í Val."

Hvað var það sem heillaði meira við Val? „Það eru kostir báðum megin en maður þarf að horfa á þetta út frá öllum þáttum. Mér finnst heillandi að fara í lið sem ætla að vera bestir, ætla að vinna allt og fara í félag sem ætlar að reyna að vera meiri atvinnumannafélag," segir Tryggvi, en Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, sagði frá því í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag að Valur ætlar að prófa nýjar leiðir á nýju ári.

Hvernig verður að mæta ÍA?
Tryggvi er uppalinn Skagamaður og hefur allan sinn feril hér á landi spilað á Akranesi. Nú verður breyting á og hann færir sig inn í Reykjavík. Hvernig verður fyrir hann að mæta ÍA í Pepsi Max-deildinni næsta sumar?

„ÍA er mitt lið og ég vil alltaf sjá ÍA ganga vel. Ég hef eytt langstærstum hluta ævinnar þarna og það gæti orðið skrítið tilfinning að fara út á Norðurálsvöllinn að spila fyrir hitt liðið," segir Tryggvi sem hefur verið lykilmaður í liði ÍA undanfarin ár.

Spenntur fyrir næsta kafla
Núna hefst næsti kafla á ferlinum og Tryggvi er spenntur fyrir því að vera hluti af liði Íslandsmeistaranna fyrir næsta tímabil.

„Mér líst mjög vel á þetta. Það vita það allir að Valur stefnir á titla á hverju tímabili og það verður markmiðið áfram. Til að vera samkeppnishæfir alltaf í öllu þá þarf að vera stór og góður hópur. Valur er búið að vera að vinna í því að bæta það með eins og til að mynda Arnóri Smárasyni."

„Ég held að ég passi fínt þarna inn í. Ég vil halda boltanum og spila góðan sóknarbolta. Ég er spenntur að byrja þetta," sagði Tryggvi Hrafn sem gengur til liðs við hið sterka Valslið fyrir næsta tímabil.
Athugasemdir
banner
banner
banner