Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 29. desember 2020 20:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sara Björk íþróttamaður ársins 2020 með fullt hús stiga
Mynd: Getty images
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði kvenna, er íþróttamaður ársins 2020. Það eru Samtök íþróttafréttamanna sem kjósa til verðlaunanna. Sara fékk fullt hús stiga í kosningunni en það er í tólfta sinn sem það gerist.

Tuttugu meðlimir kusu árið 2009 þegar síðast var um fullt hús að ræða en það kusu 30 að þessu sinni og hefur íþróttamaður ársins því aldrei fengið fullt hús frá jafnmörgum meðlimum Samtaka íþróttafréttamanna og um er að ræða metfjölda stiga. Þá er þetta einnig stærsti sigur sögunnar, 244 stiga munur.

Þetta er í annað sinn sem Sara vinnur verðlaunin, en hún gerði það líka 2018. Hún var í þriðja sæti í fyrra.

Sara Björk átti magnað ár. Hún vann Meistaradeild Evrópu með Lyon þar sem hún skoraði í úrslitaleiknum. Hún var þá fyrirliði Íslands sem tryggði sér þáttökurétt á Evrópumótinu sem fram fer í Englandi 2022.

Körfuboltamaðurinn Martin Hermannsson endaði í öðru sæti kjörsins og handboltamaðurinn Aron Pálmarsson í þriðja sæti.

Glódís Perla Viggósdóttir hafnaði í sjötta sæti og Ingibjörg Sigurðardóttir í áttunda sæti. Þær voru ásamt Söru lykilmenn í íslenska landsliðinu og áttu flott ár með félagsliðum sínum, Glódís í Rosengård í Svíþjóð og Ingibjörg í Vålerenga í Noregi. Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður og leikmaður Everton á Englandi, hafnaði í níunda sæti kjörsins.

1. Sara Björk Gunnarsdóttir, fótbolti – 600
2. Martin Hermannsson, körfubolti – 356
3. Aron Pálmarsson, handbolti – 266
4. Anton Sveinn McKee, sund – 209
5. Bjarki Már Elísson, handbolti – 155
6. Glódís Perla Viggósdóttir, fótbolti – 126
7. Guðni Valur Guðnason, frjálsíþróttir – 106
8. Ingibjörg Sigurðardóttir, fótbolti – 84
9. Gylfi Þór Sigurðsson, fótbolti – 74
10. Tryggvi Snær Hlinason, körfubolti – 66
Athugasemdir
banner
banner
banner