Milan Stefán Jankovic aðstoðarþjálfari
Tommy Nielsen verður ekki áfram þjálfari Grindvíkinga á næsta tímabili en Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar, staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net í dag.
Tommy var með eins árs samning við Grindvíkinga og ákveðið hefur verið að framlengja hann ekki.
„Það er mikil eftirsjá í Tommy. Ég var mjög ánægður með hann og handbragð hans var faglegt," sagði Jónas við Fótbolta.net í dag.
Óli Stefán Flóventsson, sem var aðstoðarþjálfari í sumar, tekur við Grindvíkingum sem aðalþjálfari. Óli var ráðinn aðstoðarþjálfari í fyrrahaust, á sama tíma og Tommy tók við sem þjálfari.
Óli Stefán spilaði með Grindavík í mörg ár á sínum tíma en hann þjálfaði síðan Sindra á Höfn í Hornafirði.
Aðstoðarþjálfari með Óla Stefáni verður Milan Stefán Jankovic. Janko þjálfaði meistaraflokk Grindavíkur um áraraðir og er öllum hnútum kunnugur eftir að hafa verið bæði sem leikmaður og þjálfari í Grindavík frá árinu 1992.
Grindavík endaði í 5. sæti í 1. deildinni í sumar með 36 stig en liðið sigldi lygnan sjó um miðja deild nánast allt tímabilið.
Athugasemdir