Rashford, Sesko, Walker, Garnacho, Vlahovic, Cunha, Pogba, Dorgu og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 06. ágúst 2021 12:30
Elvar Geir Magnússon
Spáin fyrir enska - 10. sæti
West Ham
Pablo Fornals, leikmaður West Ham.
Pablo Fornals, leikmaður West Ham.
Mynd: Getty Images
David Moyes, stjóri West Ham.
David Moyes, stjóri West Ham.
Mynd: EPA
Declan Rice.
Declan Rice.
Mynd: Getty Images
Aaron Cresswell.
Aaron Cresswell.
Mynd: Getty Images
Það styttist óðum í að enska úrvalsdeildin byrji á nýjan leik. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Hamrarnir enda í tíunda sætinu ef spáin rætist.

Um liðið: West Ham naut velgengni á síðasta tímabili og tryggði sér þátttökurétt í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Velgengni fylgja auknar væntingar og spurning hvernig liðið nær að að fylgja eftir síðasta tímabili. Hamrarnir eiga öfluga stuðningsmenn og alveg ljóst að félagið fagnar því innilega að endurheimta stuðningsmenn í stúkurnar á London leikvangnum.

Stjórinn: David Moyes var verðskuldað verðlaunaður fyrir góðan árangur með nýjum þriggja ára samningi. Margir stuðningsmenn West Ham efuðust um hann en hann hefur þaggað niður raddir þeirra. Ákvarðanir hans einkennast af skynsemi og klókindum. Liðið hefur verið skipulagt og agað undir hans stjórn.

Staða á síðasta tímabili: 6. sæti

Styrkleikar: Félagið hefur gert góð kaup undanfarin ár, gott dæmi eru Tékkarnir Vladimir Coufal og Tomas Soucek. Þrátt fyrir þá gagnrýni sem heimavöllur félagsins hefur fengið þá hefur liðið náð að skapa öfluga gryfju og var með næst besta heimavallarárangur síðasta tímabils. Liðið var mjög öflugt síðasta tímabil og gladdi stuðningsmenn. Eitthvað til að byggja ofan á.

Veikleikar: Á síðustu 10 tímabilum hafa 31 enskt lið komist í Evrópudeildina í gegnum lokastöðuna í deildinni en aðeins 9 af þeim hafa endað ofar tímabilið á eftir. Leikmannahópur West Ham er of þunnskipaður til að ráða við aukið leikjaálag og ef meiðslavandræði hrannast upp.

Talan: 9+4
Eftir að Jesse Lingard kom á láni frá Manchester United á síðasta tímabili skoraði hann níu mörk og átti auk þess fjórar stoðsendingar. West Ham hefur rembst eins og rjúpan við staurinn í að reyna að fá Lingard aftur en það verður erfitt fyrir West Ham að fá inn mann sem skilar svona tölum.

Lykilmaður: Declan Rice
Límið sem heldur öllu saman og maðurinn sem er alltaf fyrstur á blað hjá Hömrununum. Hann er með meira frjálsræði þegar hann spilar fyrir West Ham en þegar hann klæðist enska landsliðsbúningnum. Sannur leiðtogi sem stuðningsmenn West Ham óttast að missa enda eru svo sannarlega hákarlar sem girnast hann.

Fylgist með: Aaron Cresswell fær ekki alltaf það lof sem hann á skilið. Þessi bakvörður sýnir nánast alltaf stöðuga og góða frammistöðu og er frábær spyrnumaður. Átta stoðsendingar á síðasta tímabili tala sínu máli.

Komnir:
Craig Dawson frá Watford - 2 milljónir punda
Alphonse Areola frá PSG - Lán
Armstrong Oko-Flex frá Celtic - Frítt
Pierre Ekwah frá Chelsea

Farnir:
Fabián Balbuena til Dynamo Moskvu - Frítt
Felipe Anderson til Lazio - 3,5 milljónir punda

Fyrstu leikir:
15. ágúst, Newcastle - West Ham
23. ágúst, West Ham - Leicester
28. ágúst, West Ham - Crystal Palace

Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Helga Katrín Jónsdóttir, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Victor Pálsson.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9.
10. West Ham, 117 stig
11. Aston Villa, 109 stig
12. Wolves, 86 stig
13. Brighton, 73 stig
14. Southampton, 68 stig
15. Crystal Palace, 54 stig
16. Newcastle, 52 stig
17. Burnley, 40 stig
18. Brentford, 35 stig
19. Norwich, 28 stig
20. Watford, 21 stig
Athugasemdir
banner
banner