Leeds United
Það styttist óðum í að enska úrvalsdeildin byrji á nýjan leik. Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Leeds mun enda í 9. sæti ef spáin rætist.
Um liðið: Leeds var nýliði í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og flestir bjuggust við baráttu við falldrauginn. En annað kom á daginn og Leeds endaði í níunda sæti. Fótbolti.net spáir því að liðið sanni að sá árangur hafi ekki verið nein tilviljun og níunda sætið verði niðurstaðan aftur. Eftir stórskemmtilegt tímabil í fyrra, hvert er markmið Leeds núna? Evrópusæti?
Stjórinn: Marcelo Bielsa er maðurinn sem hefur leyft stuðningsmönnum Leeds að dreyma. Ákaflega sérstakur fótboltaheili sem allir keppast um að hlaða lofi. Hefur svo sannarlega litað ensku úrvalsdeildina á sinn einstaka hátt.
Staða á síðasta tímabili: 9. sæti
Styrkleikar: Allt sem Bielsa snertir verður að gulli. Leikmenn sem voru stimplaðir sem Championship leikmenn náðu að blómstra í deild þeirra bestu. Hann nær því fram í mönnum sem þeir sjálfir höfðu ekki hugmynd um að þeir gætu. Liðið spilar stórskemmtilegan fótbolta og allir eru á vagni hugmyndafræði Bielsa. Áhorfendur snúa aftur og þar á Leeds öfluga sveit.
Veikleikar: Nýliðar sem slá í gegn eiga það til að eiga erfitt uppdráttar á tímabili tvö. Andstæðingarnir vita betur núna við hverju má búast frá liðinu. Leeds notaði fæsta leikmenn af öllum liðum deildarinnar og Bielsa vill ekki vera með of stóran hóp. Leedsarar mega ekki við skakkaföllum.
Talan: 17
Jú víst. Patrick Bamford getur skorað í úrvalsdeildinni. Sautján mörk frá honum og sjö stoðsendingar en samt hafa heyrst efasemdarraddir. Sköpunarmáttur liðsins ætti að gera að verkum að fleiri í kringum hann skori meira.
Lykilmaður: Stuart Dallas
Flestir myndu nefna Kalvin Phillips en við stökkvum á Dallas. Þessi fjölhæfi leikmaður getur spilað hvar sem er á vellinum og leyst það með stakri prýði. Byrjaði síðast tímabil með flottri frammistöðu sem vinstri bakvörður og kláraði það með geggjaðri frammistöðu á miðjunni. Hvar og hvenær sem Leeds þarf á honum að halda þá er 'The Cookstown Cafu' til þjónustu reiðubúinn.
Fylgist með: Brasilíumaðurinn Raphinha er stórskemmtilegur. Níu stoðsendingar á síðasta tímabili. Markvörðurinn ungi Illan Meslier vakti mikla athygli og ef hann heldur áfram að bæta sig svona mun hann ná afskaplega langt.
Komnir:
Junior Firpo frá Barcelona - 13 milljónir punda
Jack Harrison - 11 milljónir punda
Kristoffer Klæsson frá Valerenga - 1,5 milljón punda
Amari Miller frá Birmingham
Farnir:
Gaetano Berardi - Leystur undan samningi
Ryan Edmondson til Fleetwood - Lán
Leif Davis - til Bournemouth - Lán
Oliver Casey til Blackpool
Ezgjan Alioski til Al Ahli - Frítt
Barry Douglas til Lech Poznan - Frítt
Kiko Casilla til Elche - Lán
Pablo Hernández til Castellón - Frítt
Fyrstu leikir:
14. ágúst, Man Utd - Leeds
21. ágúst, Leeds - Everton
29. ágúst, Burnley - Leeds
Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Anton Freyr Jónsson, Arnar Laufdal Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Helga Katrín Jónsdóttir, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Victor Pálsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9. Leeds, 121 stig
10. West Ham, 117 stig
11. Aston Villa, 109 stig
12. Wolves, 86 stig
13. Brighton, 73 stig
14. Southampton, 68 stig
15. Crystal Palace, 54 stig
16. Newcastle, 52 stig
17. Burnley, 40 stig
18. Brentford, 35 stig
19. Norwich, 28 stig
20. Watford, 21 stig
Athugasemdir