Van Dijk og Salah til Al-Ahli? - United vill fá Pau Torres - Ronaldo segir Al-Nassr að gera tilboð í De Bruyne - Alonso arftaki Ten Hag?
   sun 06. október 2024 17:59
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Pedro hetja Lazio - Bologna og Roma misstigu sig
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það er nóg um að vera í ítalska boltanum í dag þar sem fjórum fyrstu leikjum dagsins er lokið.

Lazio lagði Empoli að velli í áhugaverðum slag þar sem spænski kantmaðurinn Pedro, fyrrum leikmaður Chelsea sem er 37 ára gamall í dag, kom inn af bekknum og reyndist hetjan.

Pedro gerði sigurmark Lazio á 84. mínútu eftir undirbúning frá Taty Castellanos, sem klúðraði vítaspyrnu fyrr í leiknum og bætti þannig upp fyrir klúðrið með laglegri stoðsendingu.

Lazio er með 13 stig eftir 7 umferðir, þremur stigum á eftir toppliði Napoli. Empoli hefur farið vel af stað á nýju tímabili og er með 10 stig.

Roma er einnig með 10 stig eftir jafntefli á útivelli gegn Monza í dag, þar sem Artem Dovbyk skoraði eina mark Rómverja í slagnum.

Dovbyk tók forystuna á 61. mínútu en Dany Mota jafnaði á 70. mínútu og urðu lokatölur 1-1. Roma sótti stíft í leiknum en skapaði voðalega litla hættu á meðan heimamenn í liði Monza fengu fá færi en mjög góð.

Monza á eftir að sigra sinn fyrsta leik á deildartímabilinu og er aðeins með fjögur stig.

Að lokum gerðu Bologna og Parma markalaust jafntefli en slök byrjun Bologna á nýju tímabili heldur áfram eftir að hafa verið spútnik liðið á síðustu leiktíð.

Bologna er með 8 stig eftir 7 umferðir á meðan nýliðar Parma eru komnir með 6 stig.

Fiorentina og Milan eigast við í síðasta leik dagsins, en Juventus gerði óvænt jafntefli við Cagliari á heimavelli í fyrsta leik dagsins.
Athugasemdir
banner
banner