Haaland að fá nýjan risasamning - Ruud í molum - Llorente aftur í úrvalsdeildina? - Cherki til Liverpool?
   fös 07. febrúar 2020 23:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kristinn Steindórs: Ákveðin nostalgía að klæða sig í grænt aftur
Kristinn með Íslandsmeistaratitilinn 2010.
Kristinn með Íslandsmeistaratitilinn 2010.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Mynd: Breiðablik
„Eftir samtalið urðu einhverjar hreyfingar og Óskar (Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks) heyrði í mér og bauð mér að æfa með þeim," sagði Kristinn Steindórsson, nýjasti leikmaður Breiðabliks, við Fótbolta.net í kvöld.

Kristinn vitnaði þarna í samtal við Fótbolta.net um miðjan janúar.

Sjá einnig:
Kristinn Steindórs: Æfi einn og vonast eftir símtali
Kristinn Steindórs: Kom á óvart að FH vildi ekki fara í neinar viðræður

„Ég fór og gerði það og hef æft með þeim í tvær-þrjár vikur og í framhaldinu af því hófust viðræður. Svo gerðust hlutirnir ansi hratt," bætti Kiddi við.

Hvernig telur Kristinn að hann verði nýttur hjá Blikum? „Ég held ég verði framarlega á vellinum, þó við Óskar höfum ekki neglt neitt ákveðið eða rætt hlutverk eitthvað í þaula, það kemur bara í ljós."

Óskar Hrafn tjáði sig um Kristin í viðtali í kvöld.

„Hann er kominn heim og er goðsögn í klúbbnum. Hann átti mörg frábær ár hérna og var hluti af liðinu sem varð Íslandsmeistari og bikarmeistari. Hann á nóg eftir," sagði Óskar.

Kristinn var spurður hvaða leikmenn hann þekkti í hópnum sem hann kemur inn í. „Ég spilaði auðvitað með Ella (Elfari Frey Helgasyni) og Andra (Rafni Yeoman), sem er ekki hér eins og er, á sínum tíma."

„Ég þekki megnið af þessum strákum sem eru hérna. Þeir voru aðeins á eftir mér í flokkunum fyrir neðan þegar ég var hér síðast. Flottir drengir og ég hlakka til að vinna með þeim."


Hvernig er tilfinningin að vera kominn heim í Breiðablik? „Þetta er mjög góð tilfinning, ákveðin nostalgía að mæta hérna á æfingar og að klæða sig í grænt aftur. Það kviknar ákveðin neisti í manni og ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu."

Samtalið við Kidda endaði svo á léttu nótunum þegar fréttaritari rifjaði upp spá Kristins um sigurvegara NFL deildarinnar.

„Drauma Superbowl var 49ers á móti Ravens, þetta AFC er eitthvað bilað. Ég ætla samt að giska á að Chiefs (Kansas City) sigri þetta árið á móti 49ers í rosalegum leik," sagði Kristinn mánudagskvöldið 13. janúar. Spá Kristins gekk því fullkomlega upp þar sem Chiefs sigraði 49ers í úrslitaleiknum.

„Ekki hélstu að ég færi að klikka á þessu? Það eru margir titlaðir sérfræðingar og annað. Ég held að ég hafi komið svolítið á óvart þarna. Aldrei að vita hvort manni verður boðið í eitthvað podcast eða eitthvað til að ræða málin," sagði Kristinn að lokum.
Athugasemdir
banner